Blágrænt ljós sást skjótast yfir Breiðdalsvík
Íbúar á Breiðdalsvík sá í gærdag blágrænt ljós á mikilli ferð yfir bænum. Stjörnufræðingur telur mestar líkur á að um hafi verið að ræða loftstein sem kom inn í gufuhvolf jarðar.„Þetta var blágrænt langt ljós, rétt yfir klettunum hjá bænum og stefndi á ægilegri ferð á fjallið. Ég sá þetta bara í sekúndubrot,“ segir Hrafnkell Hannesson, íbúi á Breiðdalsvík.
Hrafnkell var ásamt annarri manneskju staddur í Kaupfélaginu á Breiðdalsvík og sáu þau bæði ljósið. Hann segir það hafa virst lágt á lofti.
„Það leit ekki út fyrir að vera á himninum, bara rétt yfir klettunum. Svo dó það bara út.“
Hrafnkell sá ljósið um klukkan kortér yfir þrjú í gær. Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands segir óvenjulegt að sjá slíkt á himni um hábjartan dag.
Hann heyrði fyrst af atvikinu þegar Austurfrétt hafði samband við hann en miðað við lýsingar sé líklegast að þarna hafi verið á ferð lofsteinn sem kom inn í gufuhvolf jarðar.
„Hann hefur væntanlega brunnið upp í einhverra tug kílómetra hæð þótt hann hafi virst neðarlega,“ segir Gunnlaugur.
Hann segir að til að hægt sé að reikna betur út hvað gerst hafi væri gagnlegt að fá upplýsingar frá fleiri sjónarvottum, hvort sem er á Breiðdalsvík eða annars staðar á Austfjörðum og bendir á að svona ljós sjáist stundum á upptökum úr öryggismyndavélum.
Þeir sem kunna að hafa frekari upplýsingar um undarleg ljós á lofti í gærdag geta komið þeim áfram til Veðurstofu Íslands.