Vígahnötturinn sást víða af Austfjörðum

Vígahnöttur sem íbúar á Breiðdalsvík urðu varir við í fyrradag virðist hafa sést víða á Austfjörðum, meðal annars Höfn og Reyðarfirði.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær sáu tveir íbúar á Breiðdalsvík blágrænt ljós á himni í stutta stund klukkan kortér yfir þrjú á þriðjudag. Ljósið var lágt yfir bænum og fór á mikilli ferð í áttina að fjallinu.

Í athugasemdum við fréttina hafa bæst við tvær frásagnir í viðbót, annars vegar úr Breiðdal, hins vegar frá Hornafirði.

Þorsteinn Sæmundsson, stjarneðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, safnar frásögnum af vígahnöttum yfir landinu og er listi hans aðgengilegur í gegnum vefsvæði almanaks skólans. Þar er einnig að finna frásögn sjónarvottar sem var á ferð í Reyðarfirði á þriðjudag.

Í samantekt Þorsteins er talað um blágrænt rafsuðuljós sem hafi farið nánast lárétt. Það hafi sést í um fimm sekúndur á vesturhimni og stefnt í norður. Hnötturinn hafi verið mjög bjartur fyrst hann sást í dagbirtu.

Þetta er annað dæmið um vígahnött yfir Breiðdal á listanum. Það fyrra er skráð 12. desember árið 1994 um klukkan hálf þrjú. Sá var ljósgrænn eða bláleitur með hvítan hala og sprakk á himni séð frá Breiðdalsvík. Sá sást einnig frá Eiðum.

Talið er líklegast að vígahnötturinn á þriðjudag hafi verið lofsteinn sem kom inn í gufuhvolf jarðar áður en hann brann upp. Tekið á móti frásögnum af vígahnöttum á himni hjá Veðurstofu Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.