Nemendur Seyðisfjarðarskóla flytja frumsaminn söngleik

Undanfarnar vikur hafa nemendur og starfsfólk Seyðisfjarðarskóla unnið hörðum höndum að undirbúningi söngleiksins Fjallkonan sem sýndur verður í Herðubreið seinnipartinn í dag.


Nemendur skólans hafa samið handrit undir leiðsögn Halldóru Malinar Pétursdóttur auk kennara, en Halldóra er einnig leikstjóri verksins. Í honum er fjallað um fjórar mögulegar útgáfur sögunnar um kuml sem fannst í Vestdalsheiði í Seyðisfirði árið 2004, en það er talið vera frá 10. öld. Tónlistin er samin sérstaklega fyrir af Benedikt Hermanni Hermannsyni og flutt af nemendum í listadeild.

 

Allir nemendur taka þátt á einn eða annan hátt

„Allur skólinn er undir og hver einasti nemandi kemur að sýningunni sem er árgangaskipt. Fyrstu tveir bekkirnir hafa samið sögu um manneskju sem nemendur telja að gæti hafa verið þessi fjallkona, en þau eru viss um að hún hafi verið gimsteinaþjófur, vegna þess hve mikið af perlum fannst með henni í kulminu.

Þriðji og fjórði bekkur halda að fjallkonan hafi verið völva fyrir Seyðisfjarðarbæ. Hafi verið svo mikil súld og leiðindi í bænum, að hún hafi endað á því að fórna lífi sínu til þess að vernda bæinn fyrir þeim ömurlegheitum.

Fimmti til sjöundi bekkur veltir því upp hvort fjallkonan hafi verið flóttakona og flúið hingað frá öðru landi og elstu tveir árgangarnir spyrja sig spurningarinnar; hvað ef þetta var maður en ekki kona? Hvað ef hún kom úr geimnum? Þau eru því að velta því upp hvað það er að vera maður, kona eða geimvera og svara því bara með því að segja að allir megi vera eins og þeir vilja vera.“

Halldóra Malin segir það líkast töfrum að sjá slíka sýningu lifna við. „Það koma allir að verkinu, hvort sem það er með því að standa á sviði, hanna og smíða leikmynd, hanna ljós og lýsa alla sýninguna eða hvað annað, það eru allir hluti af sýningunni.“

Söngleikurinn verður fluttur í dag klukkan 17:30 í bíósal félagsheimilisins Herðubreiðar. Aðgangseyrir 1.000 krónur fyrir aðra en nemendur skólans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.