240 viðskiptavinir Rarik án rafmagns
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jan 2025 10:04 • Uppfært 20. jan 2025 10:06
Alls eru 240 viðskiptavinir Rarik á Austurlandi án rafmagns eftir nóttina. Illa gengur að koma viðgerðarflokkum af stað. Þar sem ástandið er verst hefur verið rafmagnslaust síðan klukkan sjö í gær.
Stöðvarfjörður með 190 viðskiptavinum hefur hefur verið án rafmagns frá því um klukkan fjögur í nótt. Þar hafa þegar fundist fimm brotnir staurar rétt við þorpið. Hægt er að tengja nýjan streng, ef hægt að koma búnaði og fólki á staðinn. Til stendur að senda viðgerðarflokk frá Fáskrúðsfirði, en beðið er eftir að fært verði milli staðanna.
Frá Berunesi að Vattarnesi í sunnanverðum Reyðarfirði og frá Tungu að Grænnípu í sunnanverðum Fáskrúðsfirði hefur verið rafmagnslaust frá því um miðnætti. Viðgerðarflokkur er farinn frá Fáskrúðsfirði í fyrrnefndu bilunina. Á hvoru svæði eru 12 viðskiptavinir án rafmagns.
Innst í Berufirði hefur verið rafmagnslaust frá því um klukkan tvö í nótt. Þar brann rafmagnsstaur. Beðið er eftir að hægt verði að koma viðgerðarflokki á staðinn. Að lokum hefur verið rafmangslaust frá Djúpavogi og út Álftafjörð frá því um klukkan sjö í gærkvöldi. Þar er þess enn beðið að hægt verði að leita að bilun. Þrettán viðskiptavinir eru á hvoru svæði. Rafmagnsbilun er einnig í Lóni en hún er þekkt og þar keyrt á varaafli.
Rarik vinnur með almannavörnum að því að koma mannskap og búnaði milli staða. Varamannskapur verður sendur frá Egilsstöðum ef hægt er en einnig tryggt að hægt verði að bregðast við mögulegum bilunum á Fljótsdalshéraði.
Frekari upplýsinga er að vænta eftir stöðufund sem hófst hjá Rarik klukkan tíu. Fólk sem hefur upplýsingar um þær bilanir sem enn er leitað að er hvatt til að hringja í vaktsíma Rarik 528-9000.