Krefjast þess að dreifingu flúor yfir landareignina verði hætt: Vandamál álversins orðið að vandamáli okkar

alver 05092014 utblasturLandeigendur Áreyja í Reyðarfirði hafa farið fram á það við forsvarsmenn Alcoa Fjarðaáls að dreifingu flúor frá álverinu yfir land þeirra verði hætt. Þeir segja þau háu gildi flúor sem mælst hafa í grasi á svæðinu hafa haft áhrif á starfsemi þeirra og landnýtingu.

Kröfur sínar setja þeir fram í opnu bréfi sem birtist í vikublaðinu Austurglugganum á föstudag. Þau segjast aldrei hafa samþykkt neina dreifingu á flúor yfir landareignina og að fyrir byggingu álversins hafi talsmenn þess lofað að íbúar fjarðarins þyrftu ekki að hafa áhyggjur af hugsanlegri flúormengun.

„Og það var ítrekað að hér væri um mjög hátæknivætt og fullkomið álver að ræða," segir í bréfinu sem Guðrún Kjartansdóttir ritar undir fyrir hönd landeigenda.

Háu gildin mældust fyrst sumarið 2012 og skrifar Guðrún að þá hafi verið borið við bilun og því heitið að atvikið myndi ekki endurtaka sig. Of há gildi hafi hins vegar mælst í fyrra og aftur í ár.

„Á fundum sem haldnir eru á vegum Alcoa vegna þessa ástands er umræðan gjarnan leidd inn á þá braut að reyna að finna skýringu á háu flúorinnihaldi gróðurs hér í einhverju öðru en starfsemi álversins, til dæmis í veðurfari, landslagi eða einhverju öðru og trúlega spila þarna einhverjir þættir saman.

Það er viðurkennt að sá flúor sem hér er í gróðri kemur frá álverinu, það hefur ekki verið um aðra orsakavalda að ræða.

Þetta vandamál álversins er orðið að vandamáli hjá okkur og mörgum öðrum hér á svæðinu sem bera ábyrgð á velferð búfjár og verða að fara eftir gildandi lögum um hámark flúors og annarra aukaefna í fóðri fyrir búfé.

Þegar staðan er svona eins og raun ber vitni má lítið út af bera til þess að hér sé í óefni komið. Við förum þess vegna fram á það að dreifingu flúors yfir landið okkar verði hætt. Við höfum fulla trú á að hægt sé að vinna bug á þessu vandamáli og ætlumst til að það verði gert."

Guðrún segir dreifinguna skaða starfsumhverfi bænda á svæðinu. „Það er óviðunandi að búa við það óöryggi sem þetta ástand skapar gagnvart fóðuröflun fyrir búfé til allt að 9 mánaða vetrarforða. Við sjáum það ekki á grasinu hvort það er flúormengað þegar heyskapur hefst og á þessu landshorni er sjaldan hægt að heyja tvisvar sama sumarið.

Niðurstöður úr greiningum heysýna eru ekki kunngjörðar fyrr en seint á haustin og þegar flúor í grasi mælist svona hátt allan heyannatímann þá erum við uggandi og í algjörri óvissu meðan beðið er eftir niðurstöðum úr heysýnunum."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar