Allt á kafi í snjó: Foreldrar á Héraði beðnir um að halda börnum sínum heima

snjor egs 24022015 web
Foreldrar skólabarna á Fljótsdalshéraði eru beðnir um að hafa börn sín heima þar til færð er orðin betri á svæðinu. Gríðarlegt fannfergi hefur safnast þar upp í nótt.

Í tilkynningu sveitarfélagsins segir að ljóst sé að ófærð muni hamla öllu skólahaldi í sveitarfélaginu í dag. Foreldrar eru beðnir um að fara ekki af stað með börn sín í skóla fyrr en frekari upplýsingar berast frá skólunum.

Í tilkynningu leikskólans Tjarnarskógar segir að starfsemin sé skert þar sem starfsfólk eigi erfitt með að komast til vinnu. „Því færri sem eru á ferli því auðveldara verður að moka göturnar.“

Skólahaldi í Brúarásskóla hefur verið aflýst vegna ófærðar og í Fellaskóla er beðið eftir að færðin lagist.

Ófært eða þungfært er á flestöllum leiðum á Austurlandi en unnið að mokstri. Víðast hvar hefur safnast saman gríðarlega mikill snjór í nótt.

Mesta úrkoma á landinu í nótt var 13,5 mm í Neskaupstað samkvæmt tölum frá Veðurstofu Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar