Ótal verkefni hjá lögreglu og björgunarsveitum í ófærðinni
Töluvert hefur verið um útköll hjá bæði lögreglu og björgunarsveitum á Austurlandi undanfarinn sólarhring vegna mikils fannfergis í fjórðungnum.„Við erum búnir að fara í ótal verkefni sérstaklega í gær og jafnframt björgunarsveitir.
Það hafa verið vandræði á Fjarðarheiði, Breiðdalsheiði Skriðdal, Öxi, Fagradal, og Oddskarði," sagði Jónas Wilhelmsson hjá lögreglunni á Austurlandi í samtali við Austurfrétt í morgun.
Bifreið valt í ræsi á Öxi í gærkvöldi. Farþegar voru sóttir þangað en þeir voru óslasaðir.
Björgunarsveitin Vopni var kölluð út klukkan hálf þrjú í nótt þar sem bíll sat fastur fyrir neðan Gerði.
Að auki hafa sveitirnar sinnt þjónustuverkefnum fyrir Vegagerðina sem felast í lokunum vega.