Guðrún Bergmann stígur fram á Austurlandi: Er smá Austfirðingur í mér

Gudrun bergmanÞað er alltaf nóg að gera hjá Guðrúnu Bergmann, framkvæmdastjóra, rithöfund og fyrirlesara. Um komandi helgi eða þann 7. - 9. mars verður hún á ferð hér á Austurlandi til að halda námskeið með TAK konum og kynna ferðir nýstofnaðrar ferðaskrifstofu.

"Hún Magnfríður Ólöf formaður stjórnar Tengslanets Austfirskra kvenna, hafði samband við mig til að kanna hvort ég væri til í að koma austur og vera með vinnuhelgi fyrir konurnar í tengslanetinu. Kveikjan að þeirri beiðni er bókin Stígum fram, sem ég þýddi og gaf út, en hún er eftir Sheryl Sandberg, aðalframkvæmdastjóra Facebook. Í bókinni fjallar Sheryl um það hvernig við konur getum náð meiri árangri á vinnumarkaðnum. Ég fjalla meðal annars um þau mynstur sem halda oft aftur af okkur konum, þegar kemur að framsækni í atvinnulífinu.

Gaman að vinna með Austfirskum konum

Það er gaman að fá tækifæri til að vinna með Austfirskum konum og ekki sakar að mér finnst ég aðeins tengd svæðinu. Ég á ættir mínar að rekja til Norðfjarðar, því móðuramma mín Guðrún Sigríður Brandsdóttir fæddist þar, svo það er smá Austfirðingur í mér."

Óhrædd að stíga fram

Sjálf virðist Guðrún alls óhrædd við að halda áfram að STÍGA FRAM, því það eru ekki allir á hennar aldri sem drífa í því að stofna nýtt fyrirtæki. En hvað kom til?

"Það eru auðvitað nokkrar ástæður fyrir því, en sú mikilvægasta er sú að ég elska að ferðast og búa til umgjörð um þau ævintýri sem hægt er að upplifa í ferðum til annarra landa. Ég bý að margþættri reynslu úr ferðaþjónustu, hef skipulagt viðburði og ráðstefnur í meira en tuttugu ár, var í hótelrekstri í fimmtán ár, leiðsögumaður erlendra ferðamanna hér á landi frá 1999 og fararstjóri fyrir íslenska hópa erlendis frá árinu 2005, svo eitthvað sé nefnt.

Ferðir fyrir þig

Ég ætla að kynna ferðirnar sem við hjá Ferðum fyrir þig erum komin með í sölu á Fosshótelinu á Fáskrúðsfirði mánudagskvöldið 9. mars kl. 20:00. Við höfum sett okkur það að markmiði að sinna fólki á landsbyggðinni með því að heimsækja það. Ég bjó sjálf úti á landi í fimmtán ár og þekki því vel að þeir sem eru utan höfuðborgarsvæðisins “gleymast” oft þegar kemur að þjónustu.

Við erum auðvitað með vefsíðu sem hægt er að kaupa ferðirnar á og svo má senda okkur fyrirspurnir í tölvupósti, en ekkert kemur í staðinn fyrir persónuleg samskipti við fólk. Þeir sem ekki komast á mánudagskvöldið geta hitt mig á hótelinu frá 11-18. Svo er bara að treysta því að veðrið verði skaplegt og að fært verði á milli fjarða," segir Guðrún.

Skoða ferðir fyrri þig HÉR

Upplýsingar um Stígum fram – námskeiðið HÉR

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar