Leiðindaveður í aðsigi: Hætt við að ófært verði í mest allt kvöld
Versnandi veðri er spáð á Austurlandi og Austfjörðum upp úr klukkan sex. Veðurfræðingur ráðleggur Austfirðingum að geyma ferðir á milli staða til morguns.„Eftir klukkan sex í kvöld fer að rjúka upp með skafrenningi og snjókomu. Það verður mjög hvasst á fjallvegum og má búast við að þeir verði meira og minna ófærir," segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Þegar er gengið í veðrið á suðvesturhorninu og segir Þorsteinn að þar sjái „varla út úr augum." Það gengur síðan austur yfir landið.
Austfirðingar mega búast við nokkurri úrkomu. Á fjöllum snjóar, í byggð verður trúlega slydda og rigning á suðurfjörðum.
„Það verður blindbylur á fjallvegum og hætt við að það verði ófært mest allt kvöldið á milli staða. Við mælum með að fólk fari ekki í slík ferðalög í kvöld heldur bíði til morguns."
Von er á því að veðrið gangi niður um miðnætti.