Skip to main content

250 milljónir á Austurland í jarðhitaleitarátaki

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. sep 2025 16:14Uppfært 07. okt 2025 11:18

Verkefni á Austurlandi fá samtals 240 milljónir króna úr sérstöku jarðhitaleitarátaki sem fjármagnað er úr loftslags- og orkusjóði. Þar af er um 170 milljónum varið til að styrkja fjarvarmaveituna á Seyðisfirði.


HEF veitur fá þrjá styrki til verkefna á Seyðisfirði. Mestu munar um 121 milljón til að setja upp miðlæga varmadælu í fjarvarmaveitunni þar en við bætast tæpar 23 milljónir til að leita að jarðhita og 27,5 milljónir í jöfnunartank.

Glúmur Björnsson, jarðfræðingur og verkefnastjóri hjá HEF, kynnti verkefni fyrirtækisins á fundi sem haldinn var á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við úthlutunina í dag.

Markmið HEF að halda veitunni gangandi


Fjarvarmaveita hefur verið rekin á Seyðisfirði frá árinu 1981, lengst af á vegum Rarik en HEF tók við henni um síðustu áramót. Rarik hefur frá árinu 2017 viljað losna undan eða hætta rekstrinum, meðal annars á þeim forsendum að kerfið væri orðið úrelt og dýrt í viðhaldi. Glúmur sagði að stefna HEF hafi verið að halda veitunni gangandi enda væri um mikið lífskjaramál að ræða fyrir Seyðfirðinga.

Í dag er vatn hitað upp með rafmagni í kyndistöð og það síðan leitt í rúmlega 220 hús í bænum. Keypt hefur verið skerðanleg raforka, sem er ódýrari, en undanfarin ár hefur hún stundum ekki verið í boði auk þess sem rafmagn hefur almennt hækkað í verði. Glúmur sagði þetta kippa fótunum undan rekstrinum.

Enn tækifæri til að leita að jarðhita á Seyðisfirði


Rarik bauð Seyðfirðingum á sínum tíma styrki þannig hver húseigandi gæti sett upp varmadælu á sitt hús. Á vegum Múlaþings og HEF var gerð úttekt um hvaða kostir væru í stöðunni. Hentugast var talið að setja upp stóra miðlæga varmadælu. Þær byggja á að nýta hita sem er til staðar í einhverju formi. Stóra spurningin er hvaða orkugjafa sé hægt að nýta á Seyðisfirði.

Jarðhitaleit hefur til þessa skilað litlum árangri en HEF fékk styrk til að halda áfram. Glúmur sagði að jarðhitaleit í Seyðisfirði væri skammt á veg komin en þar væru tækifæri. Aðrir kostir geta verið varmi í andrúmslofti, glatvarmi, sjávarvarmi, slaufur í jarðvegi sem taka hita þaðan, volgrur eða jafnvel sorprennsla.

Áætlanir HEF gera ráð fyrir að á Seyðisfirði sé hægt að spara 8-10 GWH á ári, af notkun sem er að jafnaði um 13,5 GWH. Sá sparnaður ígildir 1 MW virkjun.

Vonast til að fjarvarmaveitan verði hagkvæmari


Jöfnunartankurinn, sem HEF fékk styrk fyrir, er stór einangraður vatnstankur sem geymir heitt vatn. Hugmyndin er að kaupa ódýrara rafmagn á nóttunni til að hita vatnið. Þar með er líka komið forðabúr sem getur stutt bæinn í rafmagnsleysi eða þegar þörf er á viðhaldi. Í dag er olíuketill til vara í fjarvarmaveitunni.

Gangi þessi áform upp vonast HEF til að ná að lækka rekstrarkostnað fjarvarmaveitunnar sem aftur skili sér í lægra verði til notenda. Það þýðir vonandi að fleiri Seyðfirðingar vilji tengjast henni en hún þjónar í dag um þriðjungi húsa þar. HEF áformar einnig endurbætur á dreifikerfinu.

Engin köld svæði


Auk verkefna á Seyðisfirði fékk Hitaveita Fjarðabyggðar 40 milljónir til áframhaldandi jarðhitaleitar á Fáskrúðsfirði og Vopnafjarðarhreppur 30 milljónir til að leita áfram að jarðhita í Selárdal. Loks fengu HEF veitur átta milljónir króna til jarðhitaleitar á Borgarfirði.

Á fundinum var einnig kynnt nýtt jarðvarmamat á Íslandi, hið fyrsta frá árinu 1985. Niðurstaða þess er í grófum dráttum sú að köld svæði, þar sem enginn jarðhiti finnst, séu engin á Íslandi. „Jarðhiti er út um allt, það þarf bara að finna hann og beisla,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ríkisstjórnin hefur heitið eins milljarðs aukningu til jarðhitaleitar. Jóhann Páll sagði að markmiðið væri að ljúka við hitaveituvæðingu landsins en um 10% heimila í landinu treysta á rafhitun. Jóhann Páll lýsti henni sem dýrri og óhagkvæmri.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Rarik og Aðalsteinn Þórhallsson, forstjóri HEF, við lyklaskipti að fjarvarmaveitunni á Seyðisfirði. 

Athugasemd: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var misreiknað að Austurland hefði fengið 320 milljónir.