Sjónarás og Efnamóttakan hljóta alþjóðlega umhverfisvottun: Þetta er vaxandi krafa í starfssemi fyrirtækja á Íslandi
Sjónarás ehf. (áður Gámaþjónusta Austurlands-Sjónarás) og Efnamóttakan hf. hafa hlotið ISO 14001 umhverfisvottun. Sjónarás er 3. fyrirtæki á Austurlandi til að hljóta hljóta þessa vottun en fyrir eru Alcoa og Mannvit með þessa vottun. Efnamóttakan er fyrsta spilliefnamóttaka landsins til að hljóta slíka vottun.Gámaþjónustan hf. hóf innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi í byrjun ársins 2012 og hlaut vottun samkvæmt staðlinum ISO 14001 í marsmánuði árið 2013. Í kjölfarið var hafin vinna við að innleiða umhverfisstjórnunarkerfið hjá nokkrum dótturfélögum Gámaþjónustunnar sem eru víðsvegar um land.
Bætt umhverfi og betri framtíð
Vottunin er staðfesting þess að Gámaþjónustunni og dótturfélögum hefur tekist að fylgja eftir umhverfismarkmiðum sínum sem koma fram í slagorði fyrirtækisins um „bætt umhverfi og betri framtíð“.
Umhverfisstefna Gámaþjónustunnar hf. og dótturfélaga
Gámaþjónustan er í fararbroddi í flokkun og endurvinnslu úrgangs á Íslandi, þ.m.t. spilliefna, og stuðlar að aukinni flokkun og endurvinnslu hjá viðskiptavinum sínum.
Gámaþjónustan tekur tillit til umhverfismála og leitast við að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.
Gámaþjónustan fylgir lagalegum kröfum á sviði umhverfismála og vinnur eftir umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001 til að tryggja stöðugar umbætur.
Í rekstri Gámaþjónustunnar er leitast við að fara vel með auðlindir og tekið tillit til umhverfissjónarmiða við innkaup.
Gámaþjónustan einsetur sér að kynna viðskiptavinum fyrirtækisins gildi úrgangsflokkunar, endurvinnslu og endurnýtingar með það að markmiði að auka flokkun úrgangs og bæta nýtingu auðlinda.
Vaxandi krafa á fyrirtæki
„Þetta er að verða vaxandi krafa í starfssemi fyrirtæka á íslandi að vera með alþjóðlegar vottanir. Ég hugsa líka að þróunin verði sú að fyrirtæki og sveitafélög í framtíðinni muni gera kröfu um svona vottun hjá þeim fyrirtækjum sem til dæmis bjóða í verkefni. Þetta er meira að segja aðeins komið inn.
En við erum afskaplega stolt og þakklát okkar starfsmönnum fyrir að taka svona vel í það að vinna með okkur að bæta umhverfismálin hjá okkur. Þetta er innleiðing sem tekur langan tíma og er ekki gerlegt nema að allir starfsmenn vinni með. Við erum sátt,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri Sjónaráss í samtali við Austurfrétt.
Mynd: Frá vinstri: Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, Árni H. Kristinsson framkvæmdastjóri bsi á Íslandi, Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri Sjónaráss og Jón H. Steingrímsson framkvæmdastjóri Efnamóttökunnar.