Fyrrum gjaldkeri starfsmannafélags Fjarðaáls ákærður fyrir auðgunarbrot upp á tæpar átta milljónir

alver 14082014Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákært fyrrum gjaldkera Sóma, starfsmannafélags Alcoa Fjarðaáls, fyrir fjárdrátt og umboðssvik upp á samtals tæpar átta milljónir króna. Áætlað er að rúmar sex milljónir hafi hann tekið til eigin nota.

Ákært er fyrir fjárdrátt upp á 5,5 milljónir króna. Hann skiptist í 35 færslur frá 21 þúsund krónum upp í eina milljón af reikningi starfsmannafélagsins á eigin reikninga og laser-aðgerð á augum upp á 315 þúsund krónur.

Þá er í 12 liðum ákært fyrir umboðssvik þar sem gjaldkerinn millifærði af reikningi starfsmannafélagsins án heimildar stjórnar.

Meðal þeirra eru 32 miðar á tónleika í Hofi á Akureyri, níu fartölvur til að gefa grunnskólum í Fjarðabyggð og fótbolta og tækja til knattspyrnuæfinga.

Þar eru einnig hlutir sem ákærði notaði í eigin þágu svo sem fartölva og sími, prentari, knattspyrnuþjálfaranámskeið og 200.000 króna persónulega peningagjöf hans til vinkonu.

Brotin ná frá júlí 2013 fram í miðjan mars í fyrra en brotin komust upp skömmu síðar. Ákærða var þá vikið frá störfum í álverinu.

Saksóknari fer fram á að gjaldkerinn fyrrverandi verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar en starfsmannafélagið gerir kröfu um greiðslu skaðabóta upp á 6,1 milljón króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar