Nýtt hjúkrunarheimili vígt á Egilsstöðum: Verður mikil breyting og bót fyrir heimilisfólk og starfsmenn

hjukrunarheimili egs vigsla 0051 webFjölmenni var við vígslu nýs hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum á laugardag. Þar með er lokið langri baráttu Héraðsmanna fyrir nýju heimili sem bætir aðstöðuna til muna.

„Við gátum illa þjónustað þann hluta íbúa sveitarfélagsins sem þurfti þessa þjónustu. Aðstaðan var ekki ásættanleg gagnvart þeim sem hafa meira og minna borið samfélagi á herðum sér og byggt það upp," sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri við vígsluna.

Björn, sem tók við starfinu eftir kosningar 2010, rifjaði upp að mikill þrýstingur hefði verið á að koma byggingunni af stað þegar hann tók við. „Ég held að við höfum byrjað að funda áður en ég tók við."

Teikningarnar voru endurskoðaðar og húsið fært aðeins til þannig það væri nær núverandi heilbrigðisstarfsemi á Egilsstöðum. Bygging hófst í ársbyrjun 2013 og verkið kostar um 1,5 milljarða króna sem Björn sagði innan skekkjumarka.

Sveitarfélagið byggði húsið en ríkið leigir það næstu 20 árin. Í því eru 40 hjúkrunarrými en gerður hefur verið tíu ára leigusamningur við Heilbrigðisstofnun Austurlands sem notar tíu þeirra undir sína starfsemi.

Björn spáði því annars að sá leigusamningur yrði ekki kláraður því þörf fyrir rýmin muni skapast á næstu árum. Tiltölulega einfalt á að vera að byggja við húsið.

Gunnar Jónsson, formaður bygginganefndar, skýrði frá nafni hússins sem er Dyngja. Haldin var samkeppni þar sem skilaði var inn tillögum undir dulnefni. Nefndin kaus á milli þeirra og í fyrstu umferð urðu tvær tillögur jafnar. Kosið var aftur á milli þeirra til að fá fram úrslit.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, fagnaði hjúkrunarheimilinu. Hann sagði það merki Íslendinga að bæta ávallt lífsgæði sem sem þannig væru orðin ein hin bestu í heiminum.

Á landsvísu er metin þörf fyrir 500 ný rými fram til ársins 2020. „Verkefnið er ærið og við greiðum ekki úr allri þessari þörf með steinsteypu," sagði Kristján Þór sem sagði að áherslan myndi færast á þjónustu í heimahúsum.

Guðný Jónsdóttir, formaður Félags eldri borga á Fljótsdalshéraði, var ánægð með nýja húsið. „Það verður gott að eldast á Fljótsdalshéraði."

Kristín Albertsdóttir, forstjóri HSA, benti á að aðstæðurnar á Egilsstöðum myndu breytast mikið með tilkomu Dyngju sem verður stærsta hjúkrunarheimili Austurlands. „Þetta verður mikil breyting og bót, bæði fyrir starfsmenn og vistmenn."

Gert er ráð fyrir að flutt verði inn í nýja heimilið eftir páska.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar