Héldu tundurduflið flugvélabrak
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð austur í Neskaupstað síðastliðna nótt eftir að skuttogarinn Bjartur NK120 kom með fékk tundurdufl í veiðarfæri sín og kom með til hafnar í Neskaupstað.Rúm 100 kíló af TNT sprengiefni voru í tundurduflinu. Að sögn Sigurðar Ásgrímssonar, yfirmanns sprengjusveitarinnar, var hvellettan losnuð frá og hafi það minnkað sprengihættuna til muna.
Sveitin fjarlægði forsprengjuna úr duflinu og flutti það svo með kranabíl að enda flugbrautarinnar í Neskaupstað þar sem sprengjuefni þess var brennt.
Tundurduflið kom í veiðarfærin á því svæði sem var nefnt Rósagarðurinn af þýskum kafbátasjómönnum vegna fjölda þeirra tundurdufla sem var lagt á þessum slóðum á árabilinu 1940-1943. Talið er að 90.000 duflum hafi verið lagt í sjó á þessu tímabili.
Mikilvægt að fylgja fyrirmælum
Jóhann Örn Jóhannsson var skipstjóri á Bjarti í túrnum. „Duflið kom í veiðarfærin aðfaranótt föstudags. Það kemur alltaf reglulega eitthvað drasl í trollið, en á þessum slóðum hafa verið heimildir um flugvélabrak og við héldum þetta jafnvel eitthvað slíkt. Við sáum ekki hvers kyns var fyrr en við skárum belginn.
Samkvæmt reglum höfum við samband við Landhelgisgæsluna og þaðan í sprengjudeildina. Það var bara spurning um hvort tunnan sjálf væri í eða ekki. Samkvæmt fyrirmælum sprengjusveitarinnar geymdum við duflið í fiskikari fullu af sjó, en lykilatriðið er að halda því blautu."
Aðspurður hvort ekki sé ónotarleg tilfinning að vera með slíkan hlut innanborðs sagði Jóhann; „Ef rétt er farið að hlutunum og fyrirmælum fylgt er þetta í lagi. Það var þó óneitanlegur léttir fyrir mannskapinn að fá þær upplýsingar frá sprengjudeildinni að dulflið væri ónýtt," sagði Jóhann Örn.
Ásgeir Jónsson, kranamaður skoðar duflið ásamt sprengjusérfræðingunum. Ljósmynd: Jóhann Örn Jóhannsson.