Telja breytta stefnu um olíuleit kalda kveðju til íbúa í Fjarðabyggð
Meirihluti bæjarráðs Fjarðabyggðar furðar sig á samþykkt nýafstaðins landsfundar Samfylkingarinnar þar sem lagst er gegn vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum. Fulltrúi minnihlutans telur ekki rétt að álykta um einstakar ályktanir stjórnmálaflokka og segir vinnubrögð meirihlutans ómálefnaleg.„Meirihluti bæjarráðs Fjarðabyggðar lýsir furðu sinni á stefnubreytingu Samfylkingarinnar á nýafstöðnum landsfundi til olíuleitar á Drekasvæðinu. Finnst bæjarráði þetta kaldar kveðjur til íbúa Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, en taka skal fram að Samfylkingin bauð ekki fram í neinu af átta sveitarfélögum á Austurlandi."
Þannig hljómar bókun meirihluta bæjarráðs Fjarðabyggðar sem samþykkt var á fundi ráðsins á mánudag. Jens Garðar Helgason og Jón Björn Hákonarson sitja fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ráðinu.
Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hafa undanfarin misseri staðið saman að því að laða til sín þjónustu við olíuleit og hugsanlega vinnslu á Drekasvæðinu sem talið er að skilað gæti umtalsverðri atvinnuuppbyggingu.
Á landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi var samþykkt ályktun um olíuleit og vinnslu þar sem segir að vinnsla jarðefnaeldsneytis á íslensku hafsvæði sé „í ósamræmi við hagsmun Íslendinga í loftslagsmálum."
Varað er við mengunarhættu, umhverfisógn við fiskimið og að olíuvinnslan skaði ímynd landsins sem náttúruparadísar og framsækins ríkis í orku- og umhverfisefnum.
Landsfundurinn lýsir því yfir að mistök hafi verið gerð þegar leit hafi verið hleypt af stað á Drekasvæðinu og ofan af því þurfi að vinda.
Á það hefur verið bent að Össur Skarphéðinsson, fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, hafi ötullega unnið að framgangi olíuvinnslunnar og talað um velsæld sem hún gæti bakað landsmönnum.
Eydís Ásbjörnsdóttir, sem situr fyrri hönd Fjarðalistans í bæjarráði, gagnrýnir hins vegar bókun meirihlutans. Hún bókar á móti að hún sjá „enga ástæðu til að bæjaryfirvöld álykti um breytingar á afstöðu einstakra stjórnmálaflokka í tiltektum málefnum."
Þar ítrekar hún stefnu listans um að umdeild mál, til dæmis í umhverfismálum, séu lögð fyrir íbúa og minnir á að Fjarðalistinn sé listi félagshyggjufólks í Fjarðabyggð með sjálfstæða stefnu.
„Að öðru leyti tekur undirrituð ekki þátt í ómálefnalegum vinnubrögðum fulltrúa meirihluta bæjarráðs í þessu máli."