Kristján Þór: Réttlætismál að einstaklingar hafi forræði yfir lífeyri sínum til hinstu stundar
Heilbrigðisráðherra segir að endurskoða þurfi reglur um lífeyrisgreiðslur til þeirra sem komi inn í hjúkrunarrými þannig að á þær verði litið sem réttindi einstaklinga en ekki fjárveitingar til stofnana.„Fyrirkomulagið í dag er þannig að um leið og einstaklingur er skráður inn á hjúkrunarrými hirðir Tryggingastofnun og hjúkrunarheimilið lífeyri viðkomandi einstaklings og hann fær einhverja tugi þúsunda í dagpeninga. Þessu vil ég breyta og tel að við eigum að breyta," sagði Kristján Þór við vígslu nýs hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum um síðustu helgi.
Þetta fyrirkomulag hefur sætt nokkurri gagnrýni undanfarin misseri. „Það er réttlætismál að greiðslur úr almannasjóðum í gegnum fjárlög teljist sem réttindi einstaklinga sem löggjafarsamkundan er að ákvarða þeim í stað þess að þetta séu fjárveitingar til stofnana.
Það er sömuleiðis réttlætismál að einstaklingar hafi fullt forræði yfir lífeyri sínum til hinstu stundar," sagði Kristján Þór.
Kristján ræddi málið í samhengi við breytta nálgun öldrunarmála. Hann sagði að þörf væri á 500 nýjum hjúkrunarrýmum fram til ársins 2020 en þau eru alls ríflega 2600 í dag.
Stofnkostnaður þessara rýma er talinn 1,5 milljarður króna og árlegur rekstrarkostnaður þriðjungurinn af því.
„Verkefnið er ærið og við greiðum ekki úr allri þessari þörf með steinsteypu. Við munum færa okkur hægt og bítandi í að draga úr þeirri áherslu sem hefur verið á stofnanavist og þreifa okkur inn í þann veruleika að þjónusta fólk betur og lengur í heimahúsi en gert hefur verið."
Kristján Þór sagði fyrsta skrefið í þá átt að skýra réttindi þeirra sem fari inn í hjúkrunarrými og sé sú vinna hafin hjá Sjúkratryggingum.
„Við viljum skýra réttindi þeirra sem komnir eru á þann aldur að þeir hafi þörf fyrir þessa þjónustu þannig þeir hafi meira um eigið líf að segja.“