Búið að opna yfir Breiðdalsheiði og Öxi
Mokstursmenn frá Vegagerðinni hafa í vikunni unnið að því að opna vegina yfir Breiðdalsheiði og Öxi. Talsmaður Vegagerðarinnar segir opnanirnar á fjallvegunum hafa gengið vel.Leiðin yfir Öxi var opnuð seinni partinn í dag. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir heldur minni snjó hafa verið á henni en venjulega.
Snjórinn var meiri að sunnanverðu en snjóalög jafnari að norðanverðu. Moksturinn gekk þó vel.
Hálka er á heiðinni en brekkur verða sandaðar þannig leiðin á að vera fær.
Breiðdalsheiði var opnuð fyrr í vikunni en þar er einnig hálka. Samkvæmt mokstursreglum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að fjallvegirnir tveir séu mokaðir tvisvar í viku að hausti og vori á meðan snjólétt er.
Enn er lokað til Mjóafjarðar og yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er ekki orðið ljóst hvenær þær leiðir verða opnaðar.
Frá Öxi í gær. Myndir: Vegagerðin