Risastór pollur stöðvaði ferðalanga á Öxi – Myndband
Ferðalangar á leið yfir Öxi snéru við eftir að hafa ekið fram á risastóran poll þegar komið var upp á háheiðina Berufjarðarmegin frá í kvöld. Leysingavatn hafði safnast saman á veginum sem þó var merktur greiðfær.„Færið var fínt þar til við keyrðum fram á þetta stöðuvatn á miðjum veginum," segir Arnar Þór Ingólfsson sem var á ferðinni um klukkan hálf átta í kvöld.
„Við vorum heillengi að hugsa um dýpið og enduðum á að stinga stiku ofan í pollinn. Hann var örugglega meiri en metri á dýpt."
Eftir snjókomu síðustu þrjár vikur hefur hlýnað það sem af er þessari. Í dag hefur verið hlýtt og stundum vindasamt á milli þess sem skipst hafa á skin og skúrir sem eru kjöraðstæður til leysinga.
Við keyrðum firðina semsagt. pic.twitter.com/Lk37nYxllC
— Arnar Þór Ingólfsson (@arnaringolfs) May 15, 2015