Skólahald á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði sameinað næsta haust?
Bæjarráð Fjarðabyggðar leggur til að skólahald á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði verði sameinað frá og með næsta hausti. Starfsstöðvar verði á báðum stöðunum.Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins frá í gær en tillagan er hluti af vinnu við verkefnið Fjarðabyggð til framtíðar.
Samkvæmt tillögu bæjarráðs verður skólahaldið sameinað í Skólamiðstöð Suðurfjarða strax í haust.
Gert er ráð fyrir að tveir skólastjórar verði ráðnir við grunn- og leikskólahlutann á Fáskrúðsfirði í sumar en báðar stöðurnar eru lausar. Skólastjórnun á Stöðvarfirði haldist óbreytt.
Skólastjórarnir þrír eiga að vinna náið saman sem faghópur innan miðstöðvarinnar, þvert á skólastigin. Gert er ráð fyrir að 0,3 stöðugildi sparist í stjórnun við sameininguna.
Fræðslustjóra og bæjarstjóra hefur verið falið að vinna að nánari útfærslu sameiningar auk þess sem óskað hefur verið umsagnar fræðslunefndar og fræðslu – og skólaráða.
Í skýrslu Ingvars Sigurgeirssonar um skólamál í Fjarðabyggðar var hvatt til þess að skoða sameiningu grunn- og leikskólans á Fáskrúðsfirði. Hann hvatti einnig til að skoða aukna samvinnu milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur.
Í tillögunum er skólastjórunum ásamt fræðslustjóra falið að vinna að nánari samstarf við Breiðdalshrepp með áherslu á kennslu í Stöðvarfjarðarskóla.
Bæjarráðið óskar einnig eftir að fræðslunefndin ræðu aukna samkennslu í tónskólum Fjarðabyggðar með hagræðingu að markmiði í samræmi við tillögur Ingvars. Stefnt verði að fundi með stjórnendum og starfsmönnum tónskólanna til að ræða samkennslu.