Kannabistyppi fannst á Seyðisfirði
Kannabisfylltur gervilimur fannst á bryggjunni á Seyðisfirði í morgun, eftir að tollafgreiðslu úr farþegaferjunni Norrænu var lokið. Starfsmenn á bryggjunni veittu gervilimnum athygli og fóru með hann inn á borð til tollayfirvalda. Þetta kom fyrst fram á vef RÚV.
Í samtali við Austurfrétt sagði Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði, að starfmenn hafnarinnar hefðu skemmt sér vel yfir þessum fundi og afhent gerviliminn með bros á vör. Fljótlega hafi þó fíkniefnahundur tollgæslunnar sýnt limnum mikinn áhuga og við nánari skoðun hafi komið í ljós að inni í limnum voru falin 8 grömm af kannabisefnum.
Grunur leikur á að limnum hafi verið hent út úr bifreið áður en komið var að tollaeftirliti og telur Árni að þeir sem þarna voru að verki hafi ekki þorað að fara með efnin í gegnum tollinn.
Gervilimurinn, sem er að sögn Árna ekki rafknúinn heldur handknúinn, hefur verið færður lögreglunni á Eskifirði til nánari rannsóknar.
Með ferjunni í morgun komu um 600 farþegar og níutíu farartæki. Tollafgreiðsla gekk að öðru leyti ágætlega fyrir sig. Þó er alltaf eitthvað um að matvæli og áfengi finnist í farangri farþega, sem gera sér ef til vill ekki grein fyrir því að hingað til lands má ekki flytja þýskar pylsur.