Tæpar sextíu milljónir austur í viðhald ferðamannastaða

teigarhorn 2013 asRúmum tuttugu milljónum króna verður varið til uppbyggingar á Teigarhorni í Berufirði á næstunni. Styrkurinn er hluti af átaki ríkisstjórnarinnar til uppbyggingar og verndar ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón ríkisins.

Skýrt var frá styrkjunum í morgun en alls er úthlutað tæpum 850 milljónum í 104 verkefni á 51 stað á landinu auk þess sem viðbótarfé verður varið til landvörslu um allt land.

Sex verkefni á fimm stöðum eystra skipta með sér 58,5 milljónum króna eða tæpum 7% heildarupphæðarinnar.

Mest fær Teigarhorn, tuttugu milljónir renna þar til endurbóta á friðlandsmiðstöð og tvær milljónir fyrir þátt Umhverfisstofnunar í gerð deiliskipulags.

Til Sómastaða í Reyðarfirði er veitt 13,5 milljónum þar sem koma á upp aðstöðu fyrir gæslumann auk salernisaðstöðu á bílastæði fyrir innan húsið.

Tíu milljónum er veitt til viðhalds vegar að Galtastöðum fram í Hróarstungu, sjö milljónum til salernisaðstöðu við Snæfell og loks sex milljónum til að leggja göngustíga að Helgustaðanámu.

Féð rennur til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem hefur eftirlit með verkefnunum. Í tilkynningu segir að á næstu árum verði ráðist í enn frekari umbætur á vinsælum ferðamannastöðum í umsjón ríkisins.

Þar segir einnig að vinna sé hafin við heildarstefnumótun um ferðaþjónustu í landinu auk þess sem unnin verði landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn.

Á landsvísu er hæstu upphæðinni veitt til Þingvalla, alls 156 milljónum króna. Áherslan er á nokkra af helstu ferðamannastöðum landsins svo sem Dettifoss, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss.

Mynd: Andrés Skúlason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar