Alcoa Fjarðaál veitir samfélagsstyrki
Vorúthlutun samfélagsstyrkja úr styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls fór fram í Sláturhúsinu á Egilsstöðum föstudaginn 11. júní. Veittir voru 34 styrkir til fjölbreyttra verkefna á Austurlandi fyrir um 8 milljónir samtals.Sem dæmi um verkefni sem hlutu styrk má nefna grunnskólann á Beiðdalsvík en þar í bæ stendur til að reisa plánetustíg – líkan af sólkerfinu. Þá fékk félagsmiðstöð aldraðra í Hlymsölum styrk til að festa kaup á langþráðri Overlook saumavél. Þrjú leikfélög á svæðinu fengu styrk og tvær björgunarsveitir. Svo má lengi telja, en hæsta styrkinn í þessari úthlutun eða eina milljón króna hlaut tónlistarhátíðin Eistnaflug á Neskaupsstað.
Hátíðin hefur á síðustu árum verið að festa sig í sessi sem ein helsta tónlistarhátíð landsins. Hátíðin verður haldin í ellefta sinn í júlí og hefur hún stækkað mikið síðustu ár og nú er svo komið að hún flyst úr Egilsbúð yfir í Íþróttahúsið á Neskaupsstað.
Á dagskránni í Sláturhúsinu var auk styrkúthlutunar boðið upp á tónlistaratriði og ávörp. Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa lagði í sínu ávarpi áherslu á að Alcoa Fjarðaál væri fyrirtæki sem vill leggja sitt á vogarskálarnar til að skapa betra samfélag fyrir alla sem lifa og starfa á Austurlandi. Þá flutti Óðinn Gunnar Óðinsson atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Fljótsdalshérað einnig stutt ávarp þar sem hann sagði frá starfsemi Sláturhússins og sögu þess. Um tónlistina sáu þau Margrét Dögg og Auðna Guðgeirsdætur og Hafþór Máni Valsson.
Mynd: Jón Hilmar Kárason tók við milljón króna styrk fyrir hönd Eistnaflugs