Minni hluthafar á móti sölu Norðlenska

busaeld hluthafafundur 0002 webMinni hluthafar í Búsæld, móðurfélagi kjötiðnaðarfélagsins Norðlenska, virðast tregir til að selja Kjarnafæði hlut sinn í félaginu. Átök hafa staðið um framtíð félagsins undanfarin misseri.

Um 100 manns mættu á hluthafafund sem stjórn félagsins boðaði til í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan eitt. Sjálfur fundurinn hófst ekki fyrr en einum og hálfum tíma síðar þegar búið var að afhenda hluthöfum kjörseðla í samræmi við eignarhlut þeirra.

Fjölmargir fulltrúar, einkum þeir sem komu lengra að, komu með umboð sveitunga sinna á fundinn og fóru frá háborðinu með þykk búnt af kjörseðlum.

Búsæld var stofnuð árið 2003 með það að markmiði að framleiðendur eignuðust sjálfir afurðastöð. Félagið keypti í tveimur áföngum Norðlenska af KEA, Akureyrarbæ og Norðurþingi. Þar með var byggt aftur upp af rústum Goða sem varð gjaldþrota um aldamót en vörur Norðlenska eru flestar seldar undir því vörumerki.

Starfssvæði Búsældar er frá Eyjafirði suður að Kirkjubæjarklaustri og eigendur fyrirtækisins um 520 talsins. Þrír svínabændur eru þar stærstir með samtals 18% hlut. Utan þeirra mun Egilsstaðabúið vera það eina sem á hlut sem er stærri en 1% en mjög margir eiga um 0,5%.

Kjarnafæði og Norðlenska hafa í um tvö ár átt í viðræðum um nánara samstarf en það kom nokkuð á óvart þegar Kjarnafæði lagði fram tilboð á genginu tveir í byrjun maí.

Miðað við það yrði söluandvirði félagsins um 750 milljónir króna. Hluthafar sem Austurfrétt ræddi við voru undrandi á því þar sem þeim hefði fyrir skömmu verið kynnt að verðmæti félagsins væri yfir 1200 milljónir.

Samkvæmt heimildum eru það frekar stærri hluthafarnir sem vilja selja sinn hlut enda sum hætt slátrun hjá Norðlenska. Minni hluthafar virðast hins vegar nokkuð samstíga um að hafna boðinu.

„Við erum ekki komnir hingað til að selja," sagði einn þeirra í samtali við Austurfrétt. Fleiri samtöl Austurfréttar og þingeyska fréttamiðilsins 641.is benda til þess sama.

Búast má við hitafundi enda hafa átök verið í kringum félagið síðustu misseri. Til marks um það má nefna að Jón Benediktsson, fyrrum stjórnarformaður, féll í stjórnarkjöri á aðalfundi í apríl. Eins mun núverandi stjórn hafa klofnað í afstöðu sinni til tilboðs Kjarnafæðis, hvort hafna ætti því umsvifalaust eða leggja fyrir hluthafafund eins og varð ofan á.

Tilfinningin virðist vera sú að tilboðinu verði hafnað. Samkvæmt fundarboði þarf minnst 2/3 greiddra atkvæða á fundinum sem og 2/3 hluta hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum til samþykktar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar