Engin áhætta tekin með neysluvatn: Vilja ekki leyfa hesthús á vatnsveitusvæði
Heilbrigðisnefnd Austurlands vill ekki heimila byggingu hesthúss á grannsvæði vatnsveitunnar á Eskifirði. Vatnsveitan þykir viðkvæm en þar hefur komið upp mengun í leysingum auk þess sem aðallindirnar geta þornað upp.Það var umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem leitaði umsagnar nefndarinnar vegna undanþágubeiðni um að byggja hesthús á grannsvæði vatnsveitunnar.
Málið var tekið fyrir öðru sinni á síðasta fundi nefndarinnar en því hafði áður verið hafnað með fyrirvara um umsögn sveitarfélagsins Fjarðabyggðar.
Í bókun nefndarinnar segir að neysluvatnsmál á Eskifirði séu viðkvæm. Meginvatnsból þéttbýlisins á Eskifirði eru ofan byggðar þar sem lindir eru viðkvæmar fyrir leysingum.
Þær þori í þurrum árum og þá þurfi að sækja vatn í borholur á Eskifjarðardal en á því svæði hefur verið óskað eftir byggingu hesthúsanna.
Fjarðabyggð vill ekki breyta skipulagi svæðisins auk þess sem í skýrslu frá jarðfræðistofu um Eskifjarðará segir að svæðið sé þannig að vatn við Eskifjarðará eigi greiða leið að ánni og grunnvatnsstrauma sem henni tengjast.
Nefndin telur að enga áættu skuli taka um magn og gæði neysluvatns og treystir sér ekki til að mæla með að ráðuneytið veiti umbeðna undanþágu.