Bjargar ferðamönnum reglulega úr Austdalsá: Snýst um heildstæða nálgun á Ísland sem áfangastað
Staðarhaldari á Skálanesi í Seyðisfirði segir þörf á framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu til að tryggja öryggi þeirra sem heimsækja Ísland. Henni verði líka að fylgja fjármagn í takt við arð ríkisins af greininni. Staðarhaldarar hafa reglulega komið ferðamönnum til aðstoðar í Austdalsá síðustu ár. Áin er óbrúuð þótt brú liggi tilbúin á hafnarbakkanum á Seyðisfirði.„Vegagerðin er ekki neikvæð en þetta virðist hafa með skilgreiningar í vegakerfinu að gera. Það virðist tregða til að setja vegi sem þennan inn sem ferðamannavegi og meðan það er engin skilgreining til staðar hefur sveitarfélagið eiginlega engin úrræði til að veita því sem til þarf og Vegagerðin má það ekki."
Þetta segir Ólafur Örn Pétursson, staðarhaldari á Skálanesi. Staðurinn stendur yst í austanverðum Seyðisfirði og þar hefur hann byggt upp ferðaþjónustu á náttúru staðarins síðustu ár.
Til að komast út á Skálanes þarf að fara yfir Austdalsána sem er óbrúuð og getur verið afar varasöm. Neðst í vaðinu hefur verið komið fyrir stórgrýti til að grípa bíla áður en straumurinn hrífur þá enn lengra með sér.
„Í miklum rigningum eða snjóbráð umturnast hún úr saklausri dragá í djúpa, straumharða á sem tekið hefur mjög stóra bíla. Hún getur umbreytt sér á tveimur tímum þannig þeir sem fara frá Skálanesi í góðri trú geta lent í vandræðum á bakaleiðinni."
Brúin bíður tilbúin
Í gær var björgunarsveitin á Seyðisfirði kölluð út til að aðstoða ferðamenn sem lentu í vandræðum í ánni. Ólafur segir litla hættu hafa verið á ferðum, fólkið hafi komist upp á árbakkann, en þetta séu ekki fyrstu ferðamennirnir sem þurfi að hjálpa.
„Við fáum reglulega fólk sem er í vandræðum. Við höfum hjálpað því eins og við getum en síðustu árin höfum við fyrir reglu að hringja alltaf í Neyðarlínuna til að hafa atvikin skráð."
Ólafur segist löngu byrjaður að vara við ánni en hann hafi verið rólegur framan af því fáir hafi átt leið út í Skálanes. Gestum sem ætla að heimsækja Skálanes er gerð grein fyrir færðinni og ganga þeir ýmist síðasta spölinn eða eru sóttir.
Þeim fjölgar hins vegar sem koma alfarið á eigin vegum og það voru ferðamennirnir í gær. Aðalaðdráttaraflið er fjölskrúðugt fuglalífið í Skálanesbjarginu.
„Einhvern tíma var byrjað að setja lundamyndir á kort sem komu okkur ekkert við og var ekki að okkar frumkvæði. Það er sífellt endurtekið og hingað er stanslaus rúntur allt sumarið, líka eftir að fuglinn er farinn."
Framkvæmdir hafa svo sem verið undirbúnar. Til er heilt brúargólf með handriðum sem passar á ána en það hefur árum saman verið geymt á hafnarsvæðinu á Seyðisfirði. „Fjármagnið til að byggja stólpana og standsetja brúna finnst ekki," segir Ólafur.
Þarf uppbyggingu í takt við vöxt greinarinnar
Hann segir Austdalsána ekki eina dæmið á landinu þar sem úrbóta sé þörf í vegakerfi landsins til að tryggja öryggi við fjölgun ferðamanna. Hann leggur því áherslu á að ræða um stefnumótun í ferðamálum frekar en brúna sjálfa.
„Þetta er spurning um heildstæða nálgun á Ísland sem ferðamannastað. Ég held að það séu allir áfram um brúna en það finnst ekki formlegi ferillinn fyrir hana. Ég skil að sveitarfélagið geti ekki beitt sér einhliða og það á ekki að gera það."
Hann ber ferðaþjónustuna saman við sjávarútveginn sem njóti ýmissar þjónustu enda hafi verið byggðir upp hafnarsjóðir til að taka inn tekjur og veita áfram í viðhald og frekari aðstöðuuppbyggingu fyrir sjávarútveginn.
„Það vantar þekkingu á ferðaþjónustu hjá framkvæmdavaldinu og löggjafanum. Ef það eru 50 milljarðar í tekjur og gjöld af iðnaðinum er ekkert stórafrek að veita 800 milljónum í staði sem ríkið á og berja sér á brjóst.
Við þurfum uppbyggingu í takt við vöxt greinarinnar. Það dugar ekki bara að taka peninginn og vera undrandi á að rusl sé út um allt þegar enginn setur upp ruslakörfur."