Hlaupa hringinn til styrktar sjálfsvígsforvörnum: „Það eru fleiri sem látast af völdum sjálfsvíga en í bílslysum“

QM1T7040Í gærkvöldi hljóp tólf manna hlaupahópur undir merkjum forvarnarverkefnisins Útmeð‘a í gegnum Egilsstaði á leið sinni í kringum landið. Hópurinn safnar áheitum til að stuðla að auknum forvörnum gegn sjálfsvígum og þá sérstaklega á meðal ungra karlmanna á Íslandi.

„„Þetta er bara búið að ganga alveg ótrúlega vel. Eiginlega betur en við þorðum að vona. Þrátt fyrir að við fengjum smá mótvind í Borgarfirði hefur bara allt verið á áætlun og við erum ívið fljótari en við ætluðum okkur,“ sagði hlauparinn Friðleifur Friðleifsson í samtali við Austurfrétt í gær.

Hlaupahópurinn er skipaður sex körlum og sex konum. „Við skiptum okkur niður á vaktir og það eru tveir á hverri vakt, karl og kona sem skipta tveimur klukkustundum á milli sín. Þetta er rosalega gaman en þetta er langt frá því að vera auðvelt. Við erum núna hálfnuð, svo þetta lítur bara vel út,“ sagði Friðleifur ennfremur.

Almenningur hefur verið hvattur til að slást í hóp með hlaupurunum inn í stærstu þéttbýliskjarnana á leiðinni og nokkur fjöldi fólks hljóp með hópnum frá verksmiðju Haustaks í Fellabæ og sem leið lá yfir Egilsstaðanesið að Söluskálanum.

Aðstandendur mann- og geðræktarmiðstöðvarinnar Ásheima buðu hópnum í kaffi við komuna til Egilsstaða og færðu hlaupahópnum 20 þúsund króna styrk til verkefnisins. Þá fengu hlauparar sem áttu frívakt tækifæri til þess að fara í sturtu í sundlauginni á Egilsstöðum, áður en haldið var aftur af stað.

Brýnt að rætt sé um sjálfsvíg í samfélaginu
Landssamtökin Geðhjálp og Hjálparsími Rauða kross Íslands standa ásamt hlaupahópnum að forvarnarverkefninu Útmeð‘a. Með yfirskrift verkefnisins eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum.

Á Íslandi eru sjálfvíg algengasta dánarorsök karlmanna á aldrinum 18-25 ára og segir Friðleifur brýnt að rætt sé um sjálfsvíg í samfélaginu. „Það eru fleiri sem látast af völdum sjálfsvíga en í bílslysum. Þetta er brýnt verkefni og slagorðið „Útmeð‘a“ snýst um það að menn fari að ræða þetta svolítið og það verði vitundarvakning í samfélaginu um það hversu alvarlegt mein þetta er. Við reynum að vera dugleg og safna fé í góðan málstað.“

Almenningur getur heitið á hlauparana með 1500 kr. fjárframlagi í gegnum símanúmerið 904-1500 eða lagt inn á söfnunarreikning Geðhjálpar (0546–14–411114, kt. 531180–0469) valda upphæð á meðan á hlaupinu stendur.

Hægt er að fylgjast með framgangi hlaupahópsins á Facebook-síðu Útmeð'a og í gegnum Snapchat-aðganginn utmeda.

Staðreyndir um sjálfsvíg á Íslandi
• Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára á Íslandi.
• Karlar eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri en konur til að taka líf sitt.
• Fjórir til sex ungir karlar taka líf sitt á Íslandi á hverju ári.
• Að meðaltali taka 35 manns líf sitt á Íslandi á hverju ári.
• Ríflega 100 manns eru lagðir inn á sjúkrahús vegna vísvitandi sjálfsskaða á hverju ári.
• Fleiri konur en karlar eru lagðar inn á sjúkrahús vegna vísvitandi sjálfsskaða.
• Alvarleg áföll, vímuefnaneysla, hvatvísi og ýmis konar geðraskanir hafa verið tengd sjálfsvígum.
• Ríflega eitt símtal til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 snýst um sjálfsvíg, eigið eða annarra, á hverjum einasta degi allan ársins hring.
• Símtöl til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 um sjálfsvíg voru 42% fleiri fyrrihluta ársins 2015 heldur en fyrrihluta ársins 2014.
• Erindum til Hjálparsíma Rauða krossins fjölgaði um 16% á sama tímabili.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar