Eistnaflug: Börn leyfð til klukkan tíu – Skipuleggjandi segir hátíðum mismunað
Tónlistarhátíðin Eistnaflug í Neskaupsstað sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þess efnis að lögreglustjórinn á Austurlandi hefði ákveðið að börn mættu ekki koma inn í tónleikasalinn á Eistnaflugi. Það er rangt, samkvæmt lögreglunni á Eskifirði. Börn megi vera á tónleikum til klukkan tíu. Skipuleggjandi Eistnaflugs segir tónlistarhátíðum mismunað hvað þetta varðar og nauðsynlegt sé að yfirvöld dragi skýra línu.
Að sögn Jónasar Wilhelmssonar Jensen, hjá lögreglunni á Eskifirði, mega börn vera inni í tónleikasalnum með ábyrgum forráðamanni þangað til klukkan 22 á kvöldin. Sömu reglur gildi þannig um Eistnaflug og venjulega gilda um veitingahús eða skemmtistaði – reglur sem ættu að vera öllum kunnar.„Skemmtanir sem þessar, þar sem áfengi er selt, eru almennt bannaðar innan 18 ára. Það hefur alltaf verið svoleiðis og það er ekkert annað uppi á teningnum núna en í fyrra," sagði Jónas í samtali við Austurfrétt.
Misræmi á milli hátíða
Austurfrétt heyrði í Stefáni Magnússyni, skipuleggjanda Eistnaflugs, sem lagði áherslu á að hann væri einfaldlega að benda á það misræmi sem er á milli aðgengi barna að tónlistarhátíðum á Íslandi. Reglur um þetta þurfa að vera skýrari, að sögn Stefáns.
„Ég fer á flest festivöl á Íslandi og það er alveg sama hvort það er áfengissala eða hvað, þar eru alltaf börn með foreldrum sínum,“ segir Stefán.
„Ég er alls ekki að halda því fram að sýslumanns eða lögregluembættið hérna fyrir austan sé að gera eitthvað rangt. Mér finnst bara skrítið að síðustu helgi fari ég á ATP tónlistarhátíðina í Reykjanesbæ með börnin mín, á tónleika sem standa til 01:30 og enginn veltir þvi fyrir sér – en á sama tími get ég það ekki á Eistnaflugi. Af hverju er þetta svona?,“ spyr Stefán.
„Menn mega vissulega hafa sínar skoðanir hvort það sé „málið“ að foreldrar komi með börnin sín á tónleika þar sem áfengi er haft um hönd, en línan verður að vera skýrari og það sama þarf að gilda um alla. Hvað má – og hvað má ekki?“
„Samstarfið hefur verið frábært“
Töluvert fjaðrafok myndaðist í netheimum í kjölfar tilkynningarinnar frá Eistnaflugi og ýmsir netverjar hafa ausið skammaryrðum yfir lögregluna á Austurlandi og af einhverjum ástæðum einnig yfir sveitarfélagið Fjarðabyggð. Tónninn í ummælum netverja hefur í mörgum tilfellum verið á þá leið að opinberir aðilar séu að gera hátíðinni erfitt fyrir.
Stefán segir það miður og leggur áherslu á það að hann hafi átt frábært samstarf við frábært fólk hjá lögregluembættinu og Fjarðabyggð. „Það er þvílík samvinna og gleði í gangi. Ég væri ekki að halda þetta hérna í ellefta sinn ef samstarfið við Fjarðabyggð og lögregluembættið væri ekki gott,“ sagði Stefán.