Vill bæjarstjórn Fjarðabyggðar að Seyðisfjörður verði endastöð til framtíðar?

maggy gaujaForsvarsmenn bæjarráða Fjarðabyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar eru ósammála um heppilegustu gangatenginguna fyrir Seyðisfjörð. Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar lýsti í fréttum RÚV þeirri skoðun að betra væri að byrja á göngum frá Seyðisfirði til Norðfjarðar í gegnum Mjóafjörð með tengingu upp á Fagradal, svokölluðum T-göngum, en formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar segir þau hvorki tryggja betri né tryggari vetrarsamgöngur.

„Með því að velja T-göngin svokölluðu velur Fjarðarbyggð að kasta dýrmætu fé á glæ og möguleikum á bestu hringtengingu sjávarbyggðanna á mið-Austurlandi til framtíðar við Hérað yrði fórnað," segir Margrét Guðjónsdóttir, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar í pistli sem hún ritaði á Facebook í gærkvöldi og farið hefur víða.

Skrif hennar eru viðbrögð við frétt RÚV í gærkvöldi þar sem Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, lýsti efasemdum sínum um Fjarðarheiðargöng.

Hann sagði þau „einstefnugöng" sem myndu aðeins rjúfa einangrun Seyðisfjarðar. Mikilvægt væri að rjúfa einnig einangrun Mjóafjarðar auk þess sem T-göngin myndu efla samgöngur milli allra byggðarkjarna á Mið-Austurlandi.

Með því fylgdi hann eftir bókunum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um málið en Seyðfirðingar hafa mætt bæði þeim og orðum hans nú af hörku.

Í pistli sínum vísar Margrét í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu frá árinu 2011 þar sem Fjarðarheiðargöngin eru metin besta tengingin við Fljótsdalshérað.

Margrét bendir á að T-göngin lengi vegalengdina milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða um 14 kílómetra auk þess sem munni þeirra verði væntanlega á Eyvindarárdal í 210 metra hæð yfir sjó á þekktu snjóasvæði. Þá eigi Seyðfirðingar eftir að koma sér yfir Fagradal í vályndum veðrum.

„Þau göng munu heldur ekki tryggja markmið um bættar og öruggari vetrarsamgöngur Seyðfirðinga (og Mjófirðinga)" ritar hún.

Hún spyr hvort það sé vilji bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að Seyðisfjörður verði „endastöð til frambúðar" og ítrekar að til að tryggja sem öruggastar samgöngur til framtíðar og öflugra hringtenginu skipti mestu máli að sneiða hjá Fagradal.

Hún vill byrja á Fjarðarheiðargöngum eftir að lokið hefur verið við Norðfjarðargöng og halda síðan áfram með því að bora frá Seyðisfirði yfir í Fannardal í Norðfirði í gegnum Mjóafjörð.

„Vetrareinangrun Seyðisfjarðar, Neskaupstaðar og Mjóafjarðar heyrir þá sögunni til. Enginn staður verður „endastöð"."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar