Rútufarþegum vísað í bakgarðinn til að hægja sér: Fer ekki upp í garð á næstunni nema í stígvélum

ruta skjoldolfsstadir 18072015 lystFararstjóri hjá ferðaskrifstofunni Ferðamiðlun vísaði rútufarþegum upp í garðinn við íbúðarhúsið á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal til að gera þarfir sínar í kvöld. Heimilisfólkið segist löngu vera komið með upp í kok af slíkri hegðun sem hafi viðgengist árum saman.

„Við vorum að horfa á sjónvarpið þegar við heyrðum í fólki fyrir utan. Ég hugsaði með mér hvað er nú í gangi og leit út. Pabbi gerði það sama og hljóp strax út.

Ég kom á eftir honum og þá löbbuðu tveir niður brekkuna eins og þeir höfðu verið á bakvið hús. Ég sá rútu við bensíndæluna og heyrði í pabba ræða við fararstjórann."

Þetta segir Ingunn Snædal sem var heima hjá foreldum sínum í dag. Skjöldólfsstaðir eru fyrsti bærinn á Jökuldal þegar komið er niður af Möðrudalsöræfum á hringveginum. Þar er jafnframt bensínstöð sem margir stoppa við.

„Það gerist á hverju ári að rútur eru stoppaðar og ferðamenn sendir upp í garðinn hjá okkur til að skíta. Ég hef vísað fólki á einkabílum í burtu en þegar rúturnar eru farnar að vísa fólki í garðinn er maður orðinn ansi pirraður. Það er ólíðandi að þurfa að búa við þetta.

Ég hugsaði með mér „nú geri ég eitthvað" og greip iPadinn af borðinu. Í þá mund sá ég fjóra koma í viðbót úr garðinum."

Ingunn tók myndir af rútunni, sem var merkt Hópferðabílum Akureyrar en mun vera í leiguakstri fyrir Ferðamiðlun, og deildi á Facebook ásamt sögunni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa því á fyrsta klukkutímanum var myndunum deilt oftar en 100 sinnum.

Mikil umræða hefur verið síðustu misseri um innviði fyrir vaxandi ferðaþjónustu, meðal annars klósettaðstöðu.

„Það eru engar fréttir í okkar huga að fólk sé skítandi út um allt því hér er skitið út um allt á hverju sumri. Þetta er ekki fyrsta ferðaskrifstofan sem við tölum við út af svona atviki."

Atvikið vekur enn meiri furðu þar sem ferðaþjónustan Á hreindýraslóðum, þar sem er veitingasala og salernisaðstaða, er rekin í gamla barnaskólanum um 100 metra í burtu og merkingar hennar sjást vel frá bensíntanknum.

„Ég fer ekki upp í garð á næstunni nema á stígvélum," segir Ingunn að lokum.

Ekki náðist í forsvarsmenn Ferðamiðlunar við vinnslu fréttarinnar.

Mynd: Ingunn Snædal

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.