Einn kaldasti júlímánuður sögunnar

egilsstadirNýliðinn júlímánuður er sá þriðji kaldasti sem mælst hefur á Egilsstöðum. Úrkoma á svæðinu hefur á móti verið meiri en í meðalári.

Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar fyrir tíðarfar í júlí.

Meðalhiti á Egilsstöðum var 7,6°C í júlí sem er um þremur gráðum kaldara en í meðalári. Samfelldar mælingar hófust þar árið 1955 og hefur júlí aðeins tvisvar mælst kaldari, árið 1970 og 1993.

Á Dalatanga var meðalhitinn 6,9 gráður, um tveimur stigum kaldari en undanfarinn áratug. Mánuðurinn var einnig kaldari á Teigarhorni en gengur og gerist, meðalhitinn 7,7 gráður, tæpum tveimur gráðum lægri en í meðalári.

Í samantektinni segir að júlímánuður hafi almennt verið kaldur en einkum í efstu byggðum norðaustan- og austanlands. Í Möðrudal mældist hiti 4,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, meðalhitinn var þar 5,9 stig.

Lægsti meðalhitinn var á Gagnheiði, 1,6 stig sem er lægsti meðalhiti sem vitað er um í júlí hér á landi.

Þá segir að úrkoma hafi verið yfir meðallagi á Norðaustur- og Austurlandi en á Vesturlandi var sérstaklega þurrt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar