Snæfellsskáli opnaði óvenju seint

11779832 1185559661461163 6107888402048619750 oSnæfellsvegur inn að Snæfellsskála opnaði loks fyrir akandi umferð þann 29. júlí síðastliðinn. Það er umtalsvert seinna en fyrri ár og má rekja orsökina til mikillar kuldatíðar undanfarna mánuði. „Þetta er held ég bara seinasta opnunin í manna minnum. Það var búið að vera svo mikið af snjó og aurbleytu að það var ekkert hægt að keyra hingað áður,“ segir Pétur Halldórsson, landvörður í Snæfellsskála í samtali við Austurfrétt.

Afar óvanalegt er að fyrst sé hægt að opna Snæfellsskála svona seint að sumri til. „Hann Völundur í Grágæsadal mundi eftir því að einhverntímann hefði verið opnað 20. júlí, þannig að 29. júlí er talsvert seinna en það,“ segir Pétur, aðspurður.

„Það er vel jeppafært upp að skálanum eftir slóðanum og það er búið að vera mjög gott hérna, þrátt fyrir þoku og dálitla rigningu,“ segir Pétur.

Jarðvegsbleytan á svæðinu er mikil og það var helsta ástæðan fyrir því að ekki var hægt að opna slóðann fyrr, fyrir utan snjóskaflana.

Ferðamenn eru byrjaðir að leggja leið sína í Snæfellsskála og dálítið af fólki hefur gengið á Snæfellið síðan skálinn opnaði. „Fyrir viku var bjart hérna og mjög gott að ganga upp á fjallið. Núna er þoka og úrkoma en það fer vonandi eitthvað að létta yfir. Það er búið að vera eitthvað rennsli ferðamanna, síðasta fimmtudag var tuttugu manna hópur Ítala en sumar nætur erum við ein í skálanum, svo þetta er svona bæði og,“ segir Pétur.

Landverðir í Snæfellsskála bjóða gesti og gangandi hjartanlega velkomna og hvetja unga sem aldna að leggja leið sína á Snæfellsöræfi. „Ef fólk vill gista er betra að panta fyrirfram en það er alltaf hægt að koma hingað og athuga hvernig aðstæður eru. Við erum bæði með gistingu í skálanum og á tjaldstæðinu,“ segir Pétur að lokum.

Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður - Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar