Norðfjarðargöng: Slökkviliðið æfði sig á sjóhúsum sem þurftu að víkja fyrir nýjum vegi

sjohus esk brenndSlökkvilið Fjarðabyggðar notaði tækifærið í gær til æfinga þegar tvö sjóhús við veginn niður Hólmaháls voru brennd þar sem þau voru í línu nýs vegar sem gerður verður að Norðfjarðargöngum. Slökkviliðsstjórinn segir hafa verið gott að fá æfingu við raunverulegar aðstæður.

Sjóhúsin hafa staðið neðan við veginn gegn Eskifirði í um hálfa öld en þurfti að fjarlægja vegna vegtengingar út Eskifjörð að Hólmahálsi. Vegagerðin bauð því slökkviliði Fjarðabyggðar að nota húsin til æfinga.

Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri, segir æfinguna hafa gengið vel. „Það var strekkingsvindur sem var svolítið að ergja okkur og það lagði reyk upp á veginn. Hann truflaði aðeins vegfarendur og við þurftum að stýra umferðinni."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slökkviliðið nýtur góðs af bruna húsa fyrir nýju göngin því á sínum tíma hæfði liðið sig á hesthúsum sem stóðu við munna ganganna.

Guðmundur Helgi segir nokkurn mun vera á að æfa sig í við raunverulegar aðstæður og tilbúnar eins og í reykgámum. Fyrr í sumar fékk liðið að æfa sig á íbúðarhúsi á Fáskrúðsfirði sem þurfti að brenna eftir að veggjatítlur komust í veggina.

„Það er gott að geta nýtt tækifærin og fara í raunveruleg hús þegar það er hægt."

Myndir: Guðmundur Þór Björnsson og Sjafnar Gunnarsson

sjohus esk brennd 2sjohus esk brennd 3

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar