Nýr kjarasamningur starfsmanna Alcoa Fjarðaáls samþykktur með yfirburðum
Atkvæðagreiðslu um kjarasamning AFLs og RSÍ við Alcoa Fjarðaál lauk í gær, þriðjudag, og var hann samþykktur með miklum yfirburðum. Á kjörskrá voru 393 starfsmenn og samþykktu 90% þeirra sem greiddu atkvæði um samninginn, en hann gildir til fimm ára, frá 1. mars 2015 að telja. Alls greiddu 180 starfsmenn atkvæði eða 45,8%.Helstu breytingar í nýjum samningi felast m.a. í hækkun grunnlauna og breyttu vinnutímafyrirkomulagi. Þannig mun t.d. vinnustundum vaktavinnufólks á mánuði fækka auk þess sem kveðið er á um viðbætur og hækkanir á launatöflum, árlega hækkun desember- og orlofsuppbóta og samið er um eingreiðslu til starfsmanna.
Einnig má nefna þá mikilvægu nýlundu í kjarasamningnum sem felst í fæðingarstyrk Alcoa Fjarðaáls til starfsmanna sinna sem fara í fæðingar- og foreldraorlof.
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls kveðst ánægður með samninginn og þann mikla stuðning sem hann fékk meðal starfsmanna í atkvæðagreiðslunni. Hann telur að samningurinn feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls.
Mynd: Frá undirritun kjarasamningsins.