50 káetum bætt við Norrænu
Ferjan Norræna, sem siglir til Seyðisfjarðar, mun ekki verða í siglingum frá jólum fram í byrjun mars. Miklar endurbætur eru framundan á ferjunni en heilli hæð verður bætt ofan á hana.Fimmtudaginn 19. desember mun Norræna renna upp að slippstöðinni Faryard í Munkebo í Danmörku og verður þar fram til 4. mars á næsta ári. Tveimur dögum síðar hefur hún áætlunarsiglingar á ný frá Hirtshals, að því er fram kemur í tilkynningu frá útgerð hennar, Smyril-Line.
Núverandi Norræna var afhent í apríl árið 2003 og hefur nokkrum sinnum síðan undirgengist minniháttar viðhald. Fyrir um ári sagði að Rúni Vang Poulsen, forstjóri Smyril-Line, í viðtali að fyrr en síðar kæmi að því að smíða þyrfti nýtt skip. Endurbæturnar munu þó eitthvað tefja það.
„Okkur vantar fleiri káetur og betri útiaðstöðu. Við munum því bæta við um 50 tvöföldum káetum,“ er haft eftir Rúni í tilkynningunni.
Á þilfari skipsins verður útsýnisaðstaða bætt og gert nýtt kaffihúsundir berum himin. Frekari endurbætur verður kynntar seinni part vetrar, þar með talið ný setustofa með sófum og stólum þar sem farþegar geta slakað á og notið ferðarinnar yfir hafið.
„Tímarnir hafa breyst síðan skipið kom í flota okkar fyrir 17 árum sem og væntingar viðskiptavina okkar. Það er nauðsynlegt að við fylgjum straumnum og komum til móts við þær væntingar,“ segir Rúni Vang.
Annað skip mun sinna þjónustu á leiðinni meðan Norræna er í slipp. Ekki á að þurfa að byggja við aðstöðu á Seyðisfirði til að geta tekið á móti endurbættri ferjunni.