80 þúsund króna reikningur varð að 450 þúsund króna dómsmáli

Héraðsdómur Austurlands hefur gert karlmanni á þrítugsaldri að greiða organista alls 450.000 krónur í málskostnað og fyrir þjónustu í jarðarför. Maðurinn neitaði að greiða reikning organistans því hann skildi prestinn á þá á leið að þjónusta organista og kórs væri honum að kostnaðarlausu.

Í dóminum kemur fram að vinir mannsins hafi verið búnir að bjóðast til að spila í útförinni án greiðslu. Maðurinn og hálfsystir hans báru að presturinn hafi sett nokkurn þrýsting á að kór kirkjunnar og organisti sæju um tónlistarflutning.

Maðurinn ber því við að presturinn hafi upplýst hann um að reglur væru þannig að útförin væri aðstandendum að kostnaðarlausu og hann álitið að þjónusta kórs og organista kirkjunnar væri þar inni. Hann hafi því samþykkt þá tillögu.

Fyrir dómi hafnaði presturinn því og sagðist hafa upplýst að ríkið greiddi fyrir prestsþjónustu og grafartöku en aðstandendur fyrir tónlist.

Maðurinn hélt því enn fremur fram að hann hefði aldrei átt í beinum samskiptum við organistann né heldur hefði honum verið kynnt gjaldskrá hans. Af þeim orsökum hefði ekki stofnast til samnings. Dómurinn hafnaði þeim málflutningi og taldi sýnt að hann hefði fallist á þjónustuna með milligöngu sóknarprestsins.

Presturinn bar fyrir sig þagnarskyldu um mest öll samskipti sín við manninn í kringum útförina. Hann vék ekki frá henni þótt fyrir lægi samþykki mannsins um að hann skýrði frá atvikum. Ekki var látið reyna á þagnarskylduna fyrir dómi.

Dómurinn taldi organistann hafa útlista rétt sinn til innheimtunnar og rökstutt hana vel. Alkunna væri að ýmis kostnaður félli á aðstandendur við útfarir.

Maðurinn var því dæmdur til að greiða upphaflegan reikning organistans upp á tæpar 80 þúsund krónum með vöxtum sem reiknast frá júlí í fyrra til greiðsludags. Að auki var hann dæmdur til að greiða organistanum rúmar 370 þúsund krónur í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar