Skip to main content

Á hreinu að áverkarnir á þeim látnu voru af mannavöldum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. feb 2025 18:09Uppfært 11. feb 2025 18:13

Réttarmeinafræðingar, sem báru vitni á öðrum degi réttarhaldanna yfir Alfreð Erling Þórðarsyni, segja áverkar á líkum hjónanna, sem hann er sakaður um að hafa myrt í Neskaupstað í ágúst, ekki geta verið af öðrum orsökum en mannavöldum. Lífsýni af þeim fannst á hamri í fórum Alfreðs.


Tveir réttarmeinafræðingar, sem báru vitni í lok dags, sögðu áverkana á fólkinu bera þá alla með sér að þeir hafi verið veittir af öðrum manni. Þeir voru sammála um að dánarorsökin væru miklir höfuðáverkar sem trúlega voru veittir með hamri.

Annar þeirra sagði ljóst að áhaldi hefði verið beitt og höggin mörg. „Þetta er manndráp. Við getum sagt það með eins mikilli fullvissu og við getum leyft okkur,“ sagði hann.

Erfðaefni á fötum og munum


Í gær kom fram að hamar hefði fundist í fórum Alfreðs Erlings þegar hann var handtekinn. Sérfræðingur af tæknideild lögreglunnar sagði hamarinn hefði verið hreinsaður áður en á honum hefði þó fundist blóð úr fólkinu. Þá hefðu fundist blóð úr báðum hinum látnu á fötum Alfreðs Erlings sem og á símum sem hann hafði í fórum sínum. Engin sýni af vettvangi sýndu erfðaefni úr öðrum einstaklingum þar.

Fólkið fannst látið inni á baðherbergi. Annar sérfræðingur tæknideildarinnar sagði að svo virtist sem því hefði verið komið þar fyrir. Sá sérfræðingur er lærður í blóðferlafræðum. Hann útskýrði að blóðdropar lytu lögmálum eðlisfræðinnar og rakti hrottalega atburðarásina út frá því.

Lýsingar bæði hans og réttarmeinafræðingsins af vettvangi voru hrikalegar. Hann sagði að ljóst væri að fólkinu hefði verið banað með ofbeldisfullum hætti. Frá fyrstu stundum hafi verið ljóst að andlátið var ekki slys.

Reiður út í aðstandanda þeirra látnu


Eftir verknaðinn stal Alfreð Erling bíl hjónanna og keyrði til Reykjavíkur þar sem hann fannst og var handtekinn. Stjórnandi rannsóknarinnar fyrir hönd lögreglunnar á Austurlandi sagði bílinn hafa komið fram á myndavélum og færst nær borginni. Þegar þeir náðu að skoða hver væri í bílnum reyndist það Alfreð.

Sá sagði frá að við yfirheyrslur hefði verið reynt að komast að því hvað hefði kveikt ofsann í Alfreð. Svo virtist sem hann bæri engan kala til þeirra látnu heldur annars einstaklings í fjölskyldunni. Alfreð hefði virst reiðast við að heyra það nafn nefnt og verknaðar sem sá átti að hafa unnið.

Talinn ósakhæfur


Að auki komu fyrir réttinn í dag geðlæknar sem ræddu við Alfreð Erling. Annar þeirra gerði geðmat á honum. Sá sagði engan vafa um að Alfreð Erling væri ósakhæfur, hann stjórnaðist af miklum ranghugmyndum.

Aðalmeðferðinni lýkur eftir hádegi á morgun. Þá verður lokamálflutningur sækjanda, verjanda og réttargæslumanns afkomenda þeirra látnu.

Fréttin er unnin í samvinnu Morgunblaðsins og Austurfréttar