Aðaleigandi laxeldisins á Austfjörðum leitar að nýjum meðeiganda

Måsøval Eiendom, meirihlutaeigandi Ice Fish Farm sem á öll leyfi til fiskeldis á Austfjörðum, hefur ráðið ráðgjafafyrirtæki til að leita eftir mögulegum meðeiganda að eignarhluta þess í Ice Fish Farm, móðurfélagi Fiskeldis Austfjarða/Laxa.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var norsku kauphöllinni í morgun. Þar segir að ákvörðunin fylgi í kjölfar áhuga sem félaginu hafi borist.

„Ice Fish Farm er stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands miðað við útgefin leyfi og hið eina á Austfjörðum, á mörg hundruð kílómetra strandlengju. Fyrirtækið hefur leyfi og umsóknir, auk viðbótargetu innan fjarða sinna, til að verða stórframleiðandi eldislax á heimsvísu. Sú framleiðsla yrði mun stærri en eldi Måsøval í Noregi.

Fyrirtækið er rétt að hefja vöxt sinn en það mun rækta sex milljónir seiða í ár. Þess vegna teljum við þetta vera réttu stundina til að skoða möguleikana á að fá með okkur öflugan meðeiganda til að styðja við það vaxtarskeið Ice Fish Farm sem framundan er,“ er haft eftir Lars Måsøval, stjórnarformanni, í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að innkoma nýs hluthafa breyti ekki markmiði Måsøval Eiendom að eiga í Ice Fish Farm til framtíðar. Eins að tilkynningin feli ekki í sér nokkurs konar söluboð á hlutum í fyrirtækinu. Í neðanmálsgrein er tekið fram að verið sé að láta vita af atburðum sem vænta megi að gerist en séu ýmsu háðir. Þess er vænt að leitinni að nýjum meðeiganda ljúki eigi síðar en á fyrri hluta næsta árs.

Tilkynningin kemur degi eftir að tilkynnt var að rekstrarhagnaður Ice Fish Fram á þriðja ársfjórðungi hefði numið 13,6 milljónum norskra króna eða tæpum 195 milljónum íslenskra króna. Er þetta fyrir afskriftir vegna tjóns sem varð á árinu þegar lóga þurfti fiskum úr eldi í Reyðarfirði og Berufirði fyrr en áætlað var eftir að sjúkdómurinn blóðþorri kom upp. Afskriftir þess vegna eru metnar á 1,2 milljón norskra króna eða 17,2 milljónir íslenskra. Hagnaður á sama tíma í fyrra var 0,7 milljónir norskra króna eða um tíu milljónir íslenskra. Á ársfjórðungnum var nú slátrað 1.946 tonnum af laxi samanborið við 1.042 í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.