Skip to main content

Aðeins tvívegis kaldara í Vopnafirði síðustu 30 ár en á liðnu ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. jan 2025 16:35Uppfært 29. jan 2025 16:36

Veðurstöðin að Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði hefur aðeins tvívegis á rúmlega 30 árum sýnt lægri meðalárshitastig en raunin var á síðasta ári.

Fræðingar Veðurstofu Íslands hafa tekið saman og birt tíðafarsskýrslu sína fyrir árið 2024 en þar stendur upp úr, það sem flestir upplifðu á eigin skinni, að árið í heild var í kaldara lagi nánast alls staðar á landinu. Heilt yfir landið þarf að fara aftur til ársins 1998 til að finna lægri meðalhita en raunin varð á liðnu ári.

Veðurmælingar hafa verið gerðar á Skjaldþingsstöðum um 31 árs skeið en meðalhitastigið 2024 reyndist vera aðeins 3,3°C. Aðeins tvívegis áður hefur meðalhitastig þar mælst lægra. Það þó verulega mikið hærra en ársmeðaltalið í Möðrudalnum þar sem það mældist rétt ofan frostmarks eða 0,1°C.

Á öðrum helstu veðurstöðvum Austurlands var meðalhitastigið síðasta ár gróflega í eða við miðbik frá því að mælingar hófust á hverjum stað fyrir sig. Meðalhitinn á Egilsstöðum reyndist 3,2°C sem reynist 45. kaldasta árið í 70 ára mælingarsögu, meðalhitinn að Dalatanga náði 4,1°C og 4,0°C var árshitinn á Teigarhorni í Djúpavogi. Á öllum þremur stöðunum reyndist meðalhitinn við eða nálægt því að vera heilu einu stigi undir meðaltalinu síðastliðinn tíu ár.