Skip to main content

Aðeins verið tilkynnt um fjóra dauða fugla á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. jan 2025 11:24Uppfært 29. jan 2025 11:24

Einungis hefur verið tilkynnt um fjóra dauða fugla austanlands til Matvælastofnunar (MAST) sem heldur utan um alla tölfræði varðandi hina skæðu fuglainflúensu H5N5.

Samkvæmt upplýsingum frá MAST hafa tilkynningar borist um dauða fugla víðast hvar á landinu en langmest þó á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

Heildarfjöldi dauðra fugla sem tilkynnt hefur verið nú eru 355 talsins en fjöldinn er talinn vera mun meiri því margir láta vera að tilkynna um slíkt þó óskað sé eftir að það sé gert í öllum tilfellum.

Frá Austurlandi hafa borist þrjár tilkynningar til MAST. Tvær slíkar af svæðinu milli Héraðs og Seyðisfjarðar þar sem annars vegar fundust tvær dauðar gæsir og hins vegar einn dauður himbrimi. Þriðja tilfellið varðar dílaskarf sem fannst dauður í Eskifirði.

Fyrr í þessum mánuði var staðfesta að minnst tveir kettir hefðu greinst með inflúensuna og MAST jafnframt greint einn mink sem drapst úr sömu veiki. Engin slík tilfelli hafa komið upp á Austurlandi svo vitað sé.