Aðstoða þurfti fjölda ferðalanga á Fjarðarheiði í gær
Björgunarsveitir frá Héraði og Seyðisfirði voru ræstar út síðdegis í gær til að aðstoða nokkurn fjölda vegfarenda sem lent hafði í vandræðum vegna slæmrar færðar og veðurs.
Færðin var með þeim hætti að ekki aðeins sátu bílar vegfarenda fastir á heiðinni heldur einnig snjóruðningstæki sem sat fast við Efri Staf og komst hvergi.
Báðar björgunarsveitir lögðu upp á heiðina á svipuðum tíma. Björgunarsveit Ísólfs á Seyðisfirði á öflugum trukk en Héraðsmenn á snjóbíl. Gekk allt seint vegna afar slæmrar færðar og varð úr á endanum að sendur var af stað snjóblásari frá Seyðisfirði sem blés alla leið upp að afleggjaranum að skíðaskálanum í Stafdal. Með þeim hætti varð fært á nýjan leik niður í Seyðisfjarðarbæ og elti bílalestin snjómoksturstæki alla þá leiðina.
Það segir sig sjálft að aðstæður eru miður þegar heilu snjómoksturstækin festa sig í snjó en meðfylgjandi mynd gefur kannski enn gleggri mynd en sú tekin á heiðinni meðan aðgerðir stóðu yfir. Mynd Landsbjörg