Skip to main content
Hálka eða krapi er á öllum vegum á Austurlandi og full ástæða til að aka með fyllstu gát

Áfallalaust í umferðinni þrátt fyrir verulega hálku

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. okt 2025 13:42Uppfært 31. okt 2025 13:44

Þrátt fyrir töluverða rigningu víðast austanlands frá því í morgun og meðfylgjandi asahláku á vegum og stígum hefur allt gengið áfallalaust fyrir sig að sögn lögreglu.

Gul viðvörun hefur verið í gildi á Austurlandi öllu síðan snemma í morgun sökum hratt hækkandi hitastigs og slyddu eða rigninga því samfara. Úrkoma og vindhraði reyndar verið minni en spár gerðu ráð fyrir en asahláka engu að síður á flestum vegum. 

Asahláka er á flestum vegum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa engin mál tengd umferðaróhöppum komið inn á borð hingað til. Áfram er gert ráð fyrir rigningu eða slyddu vel fram á síðdegið samkvæmt Veðurstofu Íslands og einnig verður ofankoma nokkur í nótt svo líklegt er að hálka muni aukast enn frekar en þegar er orðið.

Stórhríð hefur verið á Fjarðarheiði nánast í allan dag og mikill krapi á veginum en þar allt einnig gengið slysalaust fyrir sig enn sem komið er. Einu viðvaranir Vegagerðarinnar fyrir fjórðunginn er að hálka sé víðast hvar og krapi farin að myndast á stöku vegum en engar eru fregnir af vegskemmdum eða tjóni vegna vatnavaxta hingað til.

Viðvaranir Veðurstofunnar gilda til klukkan 17 í dag og fólk áfram hvatt til að fara varlega á vegum úti.