Aflaverðmæti makrílskipa 3 milljarðar króna hjá SVN

Aflaverðmæti makrílskipa hjá Síldarvinnslunni (SVN) nam rétt tæpum 3 milljörðum króna á þessari vertíð sem lauk nýlega.
Þetta kemur fram á vefsíðu SVN. Þar segir að heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var 148.400 tonn og eru 18.900 tonn óveidd. Í fyrra nam makrílveiði Íslendinga 125.500 tonnum.

Skipin fjögur, sem SVN var með á makrílveiðunum lönduðu 38.500 tonnum af makríl á vertíðinni og var verðmæti aflans tæplega 2.764 milljónir króna. Á sama tíma lönduðu skipin 4.600 tonnum af síld, sem fékkst sem meðafli, að verðmæti 205 milljónir króna. Þannig voru heildarverðmæti makríl- og síldarafla hjá þessum fjórum skipum í júlí og fram til 10. september 2.980 milljónir króna, að því er segir á vefsíðunni.

Á síðuinni er einnig fjallað um breytta hegðun makrílsins í ár miðað við síðustu ár. Hann gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt til Grænlands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Að þessu sinni hélt hann sig í mestum mæli lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem flestir þekkja undir nafninu Síldarsmugan. Það þurfti því að sækja aflann mun lengra en þurft hefur á undanförnum árum.

Þess skal getið að Börkur var það íslenska skip sem landaði mestum afla á vertíðinni eða 11.200 tonnum.

Þá er sagt að þegar leið á vertíðina varð ljóst að skipin þyrftu í einhverjum mæli að landa erlendis svo unnt yrði að ná kvótanum. Samtals voru landanir erlendis níu talsins og var rúmlega 10.000 tonnum af makríl landað í Færeyjum og Noregi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.