Aflvana bátur á Norðfirði
Hafbjörg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Neskaupstað, var í dag kallað út til aðstoðar fiskibáti sem varð vélarvana utarlega í Norðfirði.
Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var áhöfn Hafbjargar kölluð út um klukkan tvö í dag. Báturinn var þá staddur um 2,5 sjómílur austur af bænum.
Báturinn var nokkuð nærri landi og settu skipverjar út rekankeri á meðan þeir biðu eftir aðstoð. Lítill skemmtibátur var fyrstur á vettvang og kom spotta í fiskibátinn til að halda við hann. Báturinn var þá um eina sjómílu frá landi. Hæglætisveður var á Norðfirði og fjögurra manna áhöfn fiskibátsins ekki mikil hætta búin.
Hafbjörg lagði úr höfn um tíu mínútum eftir að útkall barst. Hún var fljót á staðinn og aðeins nokkrum mínútum síðar var taug komin í fiskibátinn. Skipin komu svo til hafnar um klukkan þrjú.