Aflvana bátur á Norðfirði og villtur fjórhjólamaður á Jökuldal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. sep 2025 09:52 • Uppfært 28. sep 2025 09:56
Austfirskar björgunarsveitir voru kallaðar tvisvar út í gær. Á Norðfirði var aflvana bátur dreginn til hafnar en á Jökuldal ökumanni fjórhjóls sem villtist í þoku leiðbeint til byggða.
Björgunarskipið Hafbjörg fór úr höfn rétt upp úr klukkan 18 til að aðstoða fiskibátinn Gísla Súrsson sem staddur var um 50 km norðaustur af Norðfirði. Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar voru fjórir skipverjar um borð en engin yfirvofandi hætta á ferðum.
Hafbjörg kom að bátnum þegar klukkuna vantaði kortér í átta. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og var fiskibáturinn dreginn inn til Neskaupstaðar. Þangað komu skipin rétt fyrir klukkan eitt í nótt.
Björgunarsveitin Jökull var kölluð út rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi vegna manns á fjórhjóli sem var orðinn villtur í talsverðri þoku norður af Háfjalli. Björgunarsveitarmenn fóru upp frá bæjunum Skjöldólfsstöðum og Hjarðargrund til leitar. Símasamband var við manninn en svartaþoka gerði leit erfiða.
Maðurinn fannst rétt fyrir klukkan tíu og var fylgt niður í Skjöldólfsstaði. Þar lauk aðgerðum um klukkan ellefu.
Taug komið í björgunarbátinn Gísla Súrsson úti fyrir Norðfirði í gærkvöldi. Mynd: Björgunarsveitin Gerpir