Aftur farið að landa fiski í Stöðvarfjarðarhöfn
Aftur er farið að landa fiski í Stöðvarfjarðarhöfn en hluti hafnarkantsins verður lokaður næstu daga vegna aðgerða við að ná togskipinu Drangi á land.Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir að enn sé ekki vitað hve mikið magn af olíu lak úr Drangi.
„Við erum ekki með stöðu á magni olíu sem lak út í Stöðvarfjarðarhöfn þar sem ekki er búið að ná að dæla úr bátnum olíunni sem er í tönkum hans til að áætla það sem upp á vantar,“ segir Jón Björn.
„Vel gekk samt að loka fyrir leka úr honum í gær og hreinsa upp frá honum. Olíulekinn hefur ekki bein áhrif á starfsemi hafnarinnar og við erum farinn að landa aftur fiski í Stöðvarfjarðarhöfn. Hluti hafnarkantsins er þó lokaður vegna aðgerða við björgun bátsins sem standa mun næstu daga.“
Fram kemur í máli Jóns Björns að öll áhersla hafi verið lögð á að ná utan um olíumengunina og það hafi gengið með ágætum.
„Allir þeir sem komu að verkinu stóðu sig með mikilli prýði, Landhelgisgæslan, slökkvilið, björgunarsveitir og starfsmenn sveitarfélagsins,“ segir Jón Björn.