Áherslan í Finnafirði færist á eldsneytisframleiðslu

Áhersla um iðnaðaruppbyggingu í Finnafirði virðist nú hafa færst frá umskipunarhöfn yfir í framleiðslu eldsneytis með vindorku. Bremenports vinnur áfram á verkefninu þrátt fyrir að íslenska ríkið sitji hjá í bili.

Frá þessu er greint í staðarblaðinu Weser Kurier. Þar er rakið að þegar Bremenports kom fyrst að verkefninu, fyrir um tíu árum, hafi hugmyndin verið að byggja umskipunarhöfn sem þjóna myndi siglingum um norðurskautið þegar sú leið myndi opnast. Meðal annars hafi verið horft til þess að umskipa málmum úr námum á Grænlandi.

Núna sé horft meira á vindorkuna til að framleiða vetni sem yrði flutt úr landi til iðnaðarframleiðslu. Nefnt er að Arcelor Mittal, næst stærsti stálframleiðandi heims sem er með verksmiðjur í Bremen, hafi áhuga á að koma á verkefninu. Fyrirtækið áformi að setja upp nýja framleiðslulínu sem nýti vetni sem orkugjafa í stað kola.

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá þá þykir forsvarsmönnum Bremenport að þeim hafi komið að lokuðum dyrum hjá íslenskum stjórnvöldum undanfarin misseri. Þeir hafi vonast eftir að haldið yrði áfram á grundvelli viljayfirlýsingar frá árinu 2016 en íslensk stjórnvöld telja sig hafa uppfyllt þær skyldur sem þau tóku að sér þar.

Árið 2019 var stofnað þróunarfélag um Finnafjörð með aðkomu Vopnafjarðarhrepps, Langanesbyggðar, Bremenports og Eflu verkfræðistofu. Verkefnið fór í bið í Covid-faraldrinum en í fyrra kom hafnarmálaráðherra Bremen til landsins í von um að koma því aftur á skrið en fékk lítil viðbrögð.

Það þýði samt ekki að verkefnið sé andvana. Rakið er að ríkisstjórnin glími við mörg erfið mál, meðal annars hugmyndir um vindorku, og vilji vart fá enn eitt stórmálið í fangið, þótt stóriðja í Finnafirði gæti reynst atvinnulífi svæðisins vel. Þá séu sveitarfélögin lítil og eigi fullt í fangi með sinn daglega rekstur.

Um þessar mundir er unnið að samningum við landeigendur í Finnafirði. Fram kemur að lífeyrissjóður með erlenda bakhjarla gæti eignast landið. Haft er eftir talsmanni Bremenports að vonast sé til að þeim viðræðum ljúki í ár. Þá sé hægt að taka næst skref og reyna aftur að fá ríkið að borðinu.

„Þetta er langt ferli og við höldum áfram með verkefnið,“ segir talsmaðurinn Holger Bruns.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar