Skip to main content

Ákaft leitað að tveimur hundum sem struku frá Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. des 2024 17:35Uppfært 13. des 2024 17:36

Víðtæk leit að tveimur setter-hundum, sem struku frá Djúpavogi í byrjun vikunnar, hefur enn engan árangur borið. Umsjónarfólk hundanna heldur enn í vonina og leitar áfram um helgina. Síðast spurðist til hundanna í Álftafirði á mánudagskvöld.


„Það er erfitt að segja hversu langt þeir hafa farið. Veðrið var mjög gott fyrstu sólarhringana, tunglbjart á nóttunni og hlýtt yfir daginn. Við höfum leitað skipulega alla vikuna, bæði nótt og dag, eftir því sem veður leyfir meðal annars með flygildi með hitamyndavél en ekkert fundið,“ segir Ólöf Rún Stefánsdóttir, íbúi á Djúpavogi sem leitt hefur leitina.

Ökumaður á ferð um Álftafjörð sá til hundanna nærri Geithellum rétt fyrir myrkur á mánudag. Sú ábending barst eftir að Mbl.is birti frétt um hundana á miðvikudag. Svo virðist sem hundarnir hafi farið hlaupandi meðfram þjóðveginum, að minnsta kosti í fyrstu.

Engar frekari vísbendingar eða ummerki hafa síðan komið fram þótt fjöldi fólks hafi lagt sitt af mörkum. „Margt fólk hefur keyrt um til að horfa eftir þeim og við erum þakklát fyrir alla þá aðstoð sem við höfum fengið. Það besta væri að heyra í sjónarvottum eða geta fundið spor til að rekja.“

Ólöf Rún segir erfitt að giska á hvert hundarnir hafi tekið stefnuna. Þetta séu veiðihundar í miklu hlaupaformi þótt heldur hefði átt að hægja á þeim eftir fyrsta sólarhringinn. Hafi þeir náð suður á Hornafjarðarsvæðið eru líkur á að þeir hafi komist í betra veður.

Hundarnir voru í pössun á Djúpavogi en heimili þeirra er á Eskifirði. Þeir höfðu þó ekki búið þar lengi, þeir voru áður í Noregi og losnuðu úr einangrun fyrir þremur vikum. Hundarnir heita Luna og Stitch. Luna er svört og þriggja ára gömul en Stitch er hvítur með rauðleit eru og flekki í andliti. Hann er nýorðin eins árs.

Ekki hefur verið skipulögð leit um helgina en aðstandendur hundanna munu í það minnsta gera sér ferð í Álftafjörðinn til að svipast um eftir þeim. Þau sem kunna að hafa séð til hundanna geta haft samband við Ólöfu í síma 868-1643.

Mynd: Aðsend