Skip to main content

Aldrei meiri umferð yfir Öxi en síðastliðið sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. sep 2025 15:51Uppfært 22. sep 2025 16:03

Samkvæmt teljurum Vegagerðarinnar síðastliðið sumar hefur aldrei áður verið meiri umferð yfir fjallveginn Öxi. Á köflum var umferðin þar meiri en á þjóðvegi 1 um Streitishvarf.

Brýn köll eftir heilsársvegi yfir Öxi alls ekki nýjar af nálinni enda verið eftir því kallað um áratugaskeið. Ekki einungis styttir slíkt hringveginn um landið um 70 kílómetra heldur og gerir heimafólki á Djúpavogi fært að komast í mikilvæga þjónustu og flugsamgöngur á Egilsstöðum klukkustund skemur en ef ekið er um firðina upp á Egilsstaði. Sá tíma gjarnan lengri þegar færð er léleg. Ekki síður mikilvægt er að hvergi í landinu verða fleiri slys á dreifbýlisvegum samkvæmt tölfræði Umferðarstofu.

Níu hundruð ökutæki per dag

Frá síðustu áramótum og fram til ágústloka fóru hartnær 80 þúsund bílar yfir Öxi og hefur umferðarþunginn yfir heiðina þá aldrei nokkurn tíma mælst meiri. Þegar mest var umferðin fóru hartnær 900 bifreiðar yfir heiðina þó meðalumferðin frá júní til ágúst hafi mælst 623 ökutæki yfir hvora leið. Fjölmarga daga var það þyngri umferð en á þjóðvegi 1 við Streitishvarf á milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur.

Heimastjórn Djúpavogs ályktaði af þessu tilefni fyrir skemmstu vegna þessa og þar ítrekað að loforð um heilsárveg um Öxi hefði verið ein helsta ástæða þess að íbúar Djúpavogs samþykktu sameiningu þess svæðis í Múlaþing á sínum tíma.

Gerð heilsársvegar yfir þessa heiðina hefur verið boðuð af hálfu stjórnvalda um næstum áratugaskeið án þess að nokkur framvinda hafi orðið. Heimafólk á Djúpavogi afar ósátt enda lítið upp úr sameiningu við fjarlægja hreppi að græða ef ekki er greið leiðin á milli án þess að það taki allan daginn.

Heimastjórn Djúpavogs bókaði á síðasta fundi sínum að einsýnt sé að ekki verði lengur beðið eftir framkvæmdum. Ljóst sé að mjór og illa viðhaldinn malarvegur yfir heiðina anni ekki síaukinni umferð fyrir utan þá staðreynd að viðhald vegarins sé í lágmarki og hann sé beinlínis lokaður allri umferð marga daga árlega að vetrarlagi.