Aldrei staðið til að skerða þjónustuna í Breiðabliki

Formaður fjölskylduráðs Fjarðabyggðar segir mistök hafa orðið til þess að rangar upplýsingar fóru út frá sveitarfélaginu um breytingar á þjónustu í Breiðabliki, þjónustuíbúðum aldraðra í Neskaupstað. Íbúi segir fólkið í húsinu hafa farið tiltölulega sátt út af fundi með forsvarsfólki sveitarfélagsins í gær.

Óánægja hefur verið undanfarna viku meðal íbúa í Breiðabliki og aðstandenda þeirra með mögulegar breytingar á þjónustu þar.

Uppruninn eru upplýsingar úr minnisblaði sveitarfélagsins þar sem skrifað er að þjónusta í Breiðabliki um helgar sé umfram skilgreinda þjónustu hjá sveitarfélaginu, kostnaðarsöm og veitt í yfirvinnu. Í minnisblaðinu er aðeins skilgreind þjónusta á virkum dögum til framtíðar en ekki um helgar.

Óttuðust að helgarþjónustan yrði afnumin


Íbúar í Breiðabliki túlkuðu þetta sem svo að verið væri að afnema helgarþjónustu. Atvik síðasta miðvikudag, 1. maí, þar sem millistjórnandi hjá Fjarðabyggð gerði tilraun með að fólk skammtaði sér sjálft á diska og ekki væri lagt á borð, lögðust afar illa í fólk þar sem margir íbúar eru of veikburða til þess, eins og kom í ljós þann dag.

Tveir millistjórnendur frá Fjarðabyggð funduðu með íbúum og aðstandendum daginn eftir. Sá fundur lægði ekki öldurnar. Sama dag samþykkti bæjarstjórn reglur um breytingar á þjónustu í þjónustuíbúðum fyrir eldra fólk. Í því minnisblaði sem fylgdi fundargerðinni á vef bæjarstjórnar er ekkert komið inn á helgarþjónustuna. Bæjarfulltrúar sem þar tóku til máls lögðu áherslu á að ekki verið að draga úr þjónustu heldur aðlaga hana þörfinni hverju sinni.

Sú afstaða var ítrekuð í fundargerð bæjarráðs á mánudag þar sem tekin var fyrir beiðni íbúa í Breiðabliki um fund með bæjarráði. Orðið var við beiðninni í gær þegar bæjarráð ásamt bæjarstjóra og sviðsstjóra fjölskyldusviðs fóru í Breiðablik.

Friður náðist í gær


Sveinn Árnason, íbúi í Breiðabliki, segir að á fundinum hafi stjórnendur Fjarðabyggðar loks getað útskýrt að rangar upplýsingar hafi farið út frá sveitarfélaginu. Fallið hafi verið frá þeim breytingum sem íbúar óttuðust og þeir beðnir afsökunar.

„Starfsfólk, íbúar og aðstandendur hafa verið í áfalli. Fólk vil almennt frið og við teljum hann hafa náðst í gær. Það er hætt við breytingarnar. Hér verður áfram helgarþjónusta með því starfsfólki sem verið hefur.

Við spurðum þau spurning og fórum fram á afsökunarbeiðni, sem við fengum. Við teljum afsökunarbeiðnina hana hafa verið einlæga. Þess vegna fóru allir tiltölulega sáttir út.“

Þjónustan eigi að vera sveigjanleg


Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskylduráðs, segir orsökina hafa verið að tvö minnisblöð um breytingarnar hafi verið í gangi hjá sveitarfélaginu. Því miður hafi vinnsluskjal þar sem helgarvaktina vantaði farið í dreifingu.

Aðdragandinn er sá að í kjölfar skipulagsbreytinga hjá Fjarðabyggð var félagsmálanefnd lögð niður og verkefni hennar flutt undir fjölskylduráð. Við það þyrfti að endurskoða reglur, meðal annars um þjónustuíbúðirnar. Þar var skilgreind ákveðin helgarvakt. Ragnar segir að samstaða hafi verið um það meðal kjörinna fulltrúa að ekki væri þörf á að skilgreina ákveðinn tímafjölda, frekar að talað yrði um að þjónustan tæki mið af þörfum hverju sinni. Þannig sé hægt að aðlaga vaktirnar ef þörfin breytist í stað þess að þurfa að samþykkja nýjar reglur formlega.

„Það stóð aldrei til að draga úr neinni þjónustu og umræðan var hvergi á þá leið í nefndum sveitarfélagsins. Okkur fannst þvert á móti ástæða til að hafa reglurnar sveigjanlegri.

Um atvikið í síðustu viku segist Ragnar að „of geyst hafi verið farið í að prófa aðgerðir“, sem séu þó þær sömu og á hjúkrunarheimilum. Þetta hafi verið gert á „viðkvæmum tímapunkti“ og „eðlilega farið öfugt ofan í“ íbúa þótt ásetningurinn hafi verið góður.

Miður að rangar upplýsingar hafi farið út


Hann segir fundinn hafa verið góðan og uppbyggilega þegar búið hafi verið að koma réttum upplýsingum á framfæri og biðjast afsökunar á að rangar hafi farið út. „Mér þykir mjög leiðinlegt að þetta hafi farið út svona. Þetta þurfti ekki að fara svona.“

Hann segir skýrt að bæjarstjórn hafi samþykkt reglur þar sem gert var ráð fyrir að helgarþjónustan tæki mið af þörfinni hverju sinni. Því væri ekki þörf á að taka málið aftur fyrir þar. Reglurnar fylgdu ekki fundargerð bæjarstjórnar en Austurfrétt fékk þær afhentar í dag. Skráð er að þær séu samþykktar af fjölskylduráði 8. apríl, bæjarráði 30. apríl og loks bæjarstjórn 2. maí.

Þar segir að starfsmaður heimaþjónustu sé aðgengilegur alla virka daga frá 8-16 og um helgar eftir þörfum til að aðstoða íbúa, samkvæmt einstaklingsbundnu mati.

Ragnar var staddur í Breiðabliki þegar Austurfrétt hafði tal af honum í morgun. Þar var hann með húslestur í hádeginu. „Það var rætt í gær að á hjúkrunarheimilunum Hulduhlíð og Uppsölum eru góðvinafélög sem sá um félagsstarf. Þannig ég tók það á orðinu og kom hingað í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar