Allt skólahald fellt niður á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2025 22:34 • Uppfært 05. feb 2025 22:46
Allt skólahald á Austurlandi á morgun hefur verið fellt niður vegna rauðrar veðurviðvörunar. Ýmsar aðrar stofnanir og fyrirtæki draga úr opnun og þjónustu. Björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út vegna foktjóns í kvöld.
Almannavarnanefnd Austurlands sendi um klukkan tíu í kvöld frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að allt skólahald á svæðinu verði fellt niður í fyrramálið.
Rauð viðvörun er í gildi til klukkan 18 á morgun og hættustig almannavarna. Því er beint til íbúa að vera ekki á ferðinni á meðan.
Af öðrum sem draga úr þjónustu má nefna að Heilbrigðisstofnun Austurlands gaf í dag út að viðbúið væri að þjónusta á einhverjum stöðum takmarkist við neyðaraðstoð. Veðrið veldur meðal annars vanda við að koma starfsfólki á milli staða. Íbúar hafa verið hvattir til að afbóka tíma ef kostur er. Það má gera í gegnum Heilsuveru.
Sýslumaðurinn á Austurlandi sendi einnig frá sér tilkynningu í kvöld um að viðbúið sé að þjónusta verði skert og einhverjar starfsstöðvar alveg lokaðar. Á Vopnafirði verður verslunin Kauptún lokuð.
Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum var kölluð út upp úr klukkan tíu því þakplötur voru að fjúka. Þar mældist 35 m/s hviða sem er óvenju mikið.
Fyrr í kvöld var sinnt verkefnum á Stöðvarfirði, þar sem rúða brotnaði og gróðurhús fauk og á Fáskrúðsfirði fauk gervigras. Þá var útkall á Seyðisfirði. Í Neskaupstað fór trampólín af stað og skemmdi bíla. Víða á austfirskum veðurstöðvum til fjalla hafa mælst hviður upp á 40 m/s.
Mynd úr safni.